Lífið

Breyta Laugardalnum í víkingasviðsmynd

Baldvin Þormóðsson skrifar
IRMA-hópurinn hefur gert þó nokkuð af víkingastyttum.
IRMA-hópurinn hefur gert þó nokkuð af víkingastyttum. vísir/gva
„Við erum að reyna að koma með nýstárlega sýn á víkingaþemað,“ segir Hrund Atladóttir en hún kemur að allri listrænni stjórnun Secret Solstice-hátíðarinnar ásamt lista- og sviðsmyndahópnum IRMA.

„Við erum að vinna í stórum víkingastyttum og veggmálverki af óminnishegranum úr Hávamálum,“ segir Hrund en hópurinn beitir sér sérstaklega fyrir að nota sem mest af endurunnum efnum.

„Við fáum afganga frá Sorpu, Orkuveitunni og afgangskaðla og -net frá fiskveiðifyrirtækjum,“ segir Hrund. „Við fengum til dæmis fjóra kassa af strigapokum sem áttu að nýtast hjá fiskifélagi en við breyttum þeim í hengirúm fyrir gesti hátíðarinnar.“

IRMA-hópurinn vinnur að veggmynd af Óminnishegranum.
Hópurinn hefur verið að gera sviðsmyndir fyrir allar helstu kvikmyndir sem teknar eru upp hér á landi á borð við Noah en Hrund lýsir verkefninu fyrir Secret Solstice sem nokkurs konar sviðsmynd líka. „Þetta er í raun bara sviðsmynd fyrir partí.“

Þrátt fyrir mikla vinnu á bak við partísviðsmyndina hefur hópurinn náð að ljúka við meirihluta vinnunnar síðastliðinn mánuð í 1.200 fermetra vöruskemmu í Kópavogi. 

„Við erum með fullt af sjálfboðaliðum héðan og þaðan sem vinna í nokkra daga og fá armband á hátíðina í staðinn,“ segir Hrund en ljóst er að mikil eftirvænting ríkir fyrir hátíðinni sem fer fram næstu helgi.

Það er hægara sagt en gert að breyta Laugardalnum í útitónleikasvæði.vísir/gva





Fleiri fréttir

Sjá meira


×