Bakþankar

Forræðismygla

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Í haust ætlar Alþingi að ræða frumvarp sem heimilar sölu á áfengi í verslunum. Einu skilyrðin eru að áfengið verði ekki selt eftir klukkan átta á kvöldin og að salan fari fram í afmörkuðu rými. Og að sá sem afgreiðir hafi náð tilskildum aldri. Og auðvitað að viðkomandi sveitarfélag gefi leyfi. Og reyndar að gengið verði frá búsinu samkvæmt kröfum ríkisins… Það er því fullt tilefni til að ræða fleiri góð skref í átt að nútímanum.

Að aðskilja ríki og kirkju er góð byrjun. Að barn sé skráð í trúfélag móður sinnar við fæðingu er galin tilhögun sem viðheldur úreltum gildum, þenur út félagatal þjóðkirkjunnar og verður aðhlátursefni framtíðarkynslóða. Alveg eins og þegar við hlæjum að 25 ára gömlum umræðum á Alþingi um bjórbannið.

Svoer það landbúnaðarkerfið. Verndartollar virka eins og tröll undir brúnni þar sem grasið er hvorki grænt hjá neytendum né bændum. Frjáls innflutningur á fersku kjöti, ostum og öðrum mjólkurvörum er framandi hugmynd á Íslandi. Ég er þrítugur og ég veit ekki einu sinni almennilega hvað buffalaostur er. Ég hef aldrei smakkað útlenskan gráðaost og um daginn borgaði ég svo mikið fyrir sneið af útlenskum brie-osti að ég fann fyrir einkennum áfallastreituröskunar um leið og Reiknistofa bankanna samþykkti greiðsluna.

Þaðer meira. Ferskt kjöt frá alls konar löndum er flutt til Mónakó og Hong Kong. Samt eru lífslíkur hærri í þessum löndum en á Íslandi. Hvernig má vera að í Hong Kong, og hinum fimm löndunum þar sem lífslíkurnar eru betri en hér, borði fólk meira skyr og lambakjöt en Íslendingar? Og hvað eru nokkur ár til eða frá? Ég skal fórna ári af lífslíkum hraðar en Sigurður Ingi nær að flytja Fiskistofu á Svalbarða fyrir úrvalið í kjötborðunum í Frakklandi.

Ogeitt enn. Þetta forræðismyglaða ríki þarf að heimila innflutning á ferskum nöfnum og leggja niður mannanafnanefnd. Árið er 2014 og við eigum Elvis en engan Presley.






×