Lífið

Meiri áhersla lögð á búningana en boltann

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Liðsmenn Píkubananna komu bókstaflega með hvelli á svæðið í fyrra.
Liðsmenn Píkubananna komu bókstaflega með hvelli á svæðið í fyrra.
„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á það að koma á svæðið með alvöru innkomu. Þetta er alltaf algjör útrás fyrir athyglissýkina í okkur,“ segir Hákon Dagur Guðjónsson, fyrirliði Píkubananna, en Mýrarboltaliðið hefur slegið í gegn undanfarin ár fyrir stórskemmtilegt búningaval og líflega innkomu á drulluboltamótið.

Liðsmenn Píkubananna eru hátt í þrjátíu talsins og eru allir ættaðir að vestan. „Við reynum alltaf að toppa okkur ár hvert. Í fyrra komum við á svæðið í stærðarinnar flutningabíl og opnuðum hann á miðju svæðinu með þvílíkum látum, flugeldum, reyksprengjum, konfetti og tilheyrandi dólgslátum.

Gianlugi Búkon Hákon Dagur, eða Gianlugi Búkon, er ekki einungis fyrirliði Píkubananna heldur stendur hann einnig á milli stanganna.
Stefnan er svo auðvitað að gera betur í ár,“ segir Hákon, sem gefur ekkert upp um búningavalið. 

„Þetta er allt saman háleynilegt og einungis liðsmenn og einstaka eiginkona sem fá að vita hvað verður gert í ár. En ég get lofað því að þetta verður stórfenglegt.“

Hákon segir liðsmenn Píkubananna þó ekki alla sprikla með í drullunni.

„Drjúgur parturinn er bara að djúsa og peppa upp liðið af hliðarlínunni. Við höfum eiginlega lagt meiri áherslu á búningana en boltann í gegnum árin en okkur hefur þó tekist að komast í undanúrslit fjögur ár í röð. Ætli við reynum ekki að komast lengra í ár,“ segir Hákon, en Píkubanarnir mæta á svæðið um hádegisbilið á laugardag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.