Lífið

Verslunarmannahelginni ætti að eyða í bænum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Berglind Sunna Stefánsdóttir og Megan Horan lofa gleði og glaum á Innipúkanum um helgina.
Berglind Sunna Stefánsdóttir og Megan Horan lofa gleði og glaum á Innipúkanum um helgina. Fréttablaðið/Arnþór
Það er alltaf hægt að fara út á land, allar helgar sumarsins, en þetta er helgin sem maður vill halda sér í bænum,“ segir Berglind Sunna Stefánsdóttir, annar skipuleggjandi Innipúkans sem verður haldinn í miðbæ Reykjavíkur um helgina.

„Við erum að skipuleggja þriggja daga tónleikaveislu í Naustinni á skemmtistöðunum Húrra og á Gauknum.“

Berglind Sunna segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að hafa mikla breidd í vali á tónlist og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Það eru ríflega þrjátíu hljómsveitir að spila, bæði minni og stærri bönd.“

Dagskráin spannar þrjá daga á stöðunum tveimur. „Á Húrra verður almenn dagskrá ef við getum kallað það svo,“ útskýrir Berglind. En á Gauknum verða þemakvöld, þannig geta þungarokkarar þanið raddböndin á föstudeginum, aðdáendur electro stigið dans á laugardeginum og hiphop-senan tekur öll völd á sunnudeginum.

Meiri heildarhátíðarstemning verður yfir Innipúkanum í ár en hefur verið þar sem skipuleggjendur fengu leyfi til þess að loka af götunni hjá Naustinni. Þar stendur til að koma upp setuaðstöðu. „Þar verður húllumhæ á laugardeginum þegar við höldum lunch beat,“ segir Berglind. Plötusnúðurinn Ívar Pétur úr FM Belfast stýrir þeirri uppákomu en hann er þekktur fyrir að spila einstaklega skemmtilega danstónlist.

Á sunnudeginum verður PubQuiz undir stjórn þeirra Loga Höskuldsonar úr Sudden Weather Change og Teits Magnússonar úr Ojba Rasta.

Berglind segir ekki uppselt á hátíðina enn. „En ég er hrædd um að miðarnir fari hratt núna.“

Tónleikar með Grísalappalísu eru þekktir fyrir sérstaklega mikla stemningu og stuð og má gera ráð fyrir því að þakið rifni af Húrra á sunnudag.
Halda í hefðir

Hefð hefur verið fyrir því á hátíðinni að leiða saman þekktan og farsælan tónlistarmann af gamla skólanum og hljómsveit sem hefur nýlega náð vinsældum. Í ár verður engin breyting á því og mun hápunktur hátíðarinnar vera á sunnudagskvöldinu þegar Megas og Grísalappalísa stíga saman á svið.

„Tónlistin hans hafði sérstaklega mikil áhrif á mig og Baldur sem semjum textana,“ sagði Gunnar Ragnarsson, söngvari Grísalappalísu, en hljómsveitin er að hans sögn spennt fyrir tónleikunum. 

Áherslan verður lögð á tónlist Megasar en þó verða tekin tvö lög eftir Grísalappalísu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.