Lífið

Allir reyna að flippa í smakkinu

„Ég byrjaði að þessu í ágúst í fyrra, bara til að reyna að gera eitthvað fyndið og skemmtilegt til að fá viðskiptavinina til að kaupa meiri ávexti,“ segir Margrét María, en hún er starfsmaður Hagkaups á Eiðistorgi.

Þar tekur hún sig stundum til og býr til listaverk úr ávöxtunum sem þar er að finna.

„Ef valinn hefur verið ávöxtur mánaðarins þá reyni ég að nota hann til þess að hvetja fólk til þess að smakka nýjan ávöxt,“ segir Margrét en svo virðist sem uppátæki hennar hafi gengið svo vel að Hagkaup efndi til keppni í byrjun sumars um það hvaða verslun væri með flottasta smakkdallinn.

„Þetta er bara á milli Hagkaupsbúðanna,“ segir Margrét.

„Allir eru að reyna að gera eitthvað flipp í smakkinu.“ Margrét flutti hingað frá Póllandi fyrir fjórum árum en þrátt fyrir það talar hún nánast fullkomna íslensku.

„Ég reyni mitt besta til að læra,“ segir hún.

Margrét byrjaði að vinna í Hagkaupi fyrir rúmu ári og líkar það mjög vel. „Ég er alltaf með vinkonur mínar sem hjálpa mér með listaverkin,“ segir hún.

„Bylgja hjálpar mér mjög mikið, endilega minnstu á hana, henni finnst það örugglega gaman,“ segir Margrét og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.