Lífið

Er ekki aðlaðandi í konugervinu

Vísir/Stefán
„Já, ég ætla að vera þarna veislustjóri í þessari miklu gleði- og hæfileikaveislu og hlakka mikið til,“ segir Þorsteinn Guðmundsson sem ætlar að vera kynnir og sjá um að skemmta fólki á milli atriða í Draggkeppni Íslands sem fram fer annað kvöld í Hörpu.

Draggkeppni Íslands er árleg keppni þar sem draggkóngar og draggdrottningar berjast um hinn eftirsótta titil draggkóngur og draggdrottning Íslands.

Þetta er í 17. skiptið sem keppnin er haldin og þema keppninnar í ár er „On the cover of the DraggingStones“.

Frá keppninni í fyrra


„Ég get ekki sagt að ég sé draggunnandi en hef samt nokkrum sinnum klætt mig í kvenmannsföt en það hefur aðallega verið vinnutengt,“ segir Þorsteinn og hlær.

Hann segir að af sinni reynslu að dæma sé það yfirleitt stutt gaman að klæðast kvenmannsfötum. 

„Mér þykja kvenmannsföt óþægileg og svo er ég bara mjög óaðlaðandi kona. Eftir að ég hafði brugðið mér í konugervi í Fóstbræðrum í fyrsta sinn var reynt að sneiða hjá því seinna meir að setja mig í kvenmannsgervi. Það eru ekki allir sem geta verið góðar konur en Jón Gnarr getur verið ákaflega flott kona og kelling og algjörlega sannfærandi þótt hann sé sannfærandi og flottur karlmaður,“ útskýrir Þorsteinn.

Hann á ekki von á því að fara í dragg en útilokar þó ekki að hann næli sér í varalit þegar líða tekur á kvöldið.

„Ég hlakka sérstaklega til að sjá dansatriðin, ég hef mjög gaman af vel útfærðum dansatriðum sem innihalda músík sem ég fíla.“

Keppnin fer fram í Eldborgarsalnum í Hörpu annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.