Lífið

Reynir að vera ekki fáviti að tilefnislausu

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Villi segir Leiðinlega gaurinn vera hliðarsjálf, en segist sjálfur forðast allt leiðinlegt.
Villi segir Leiðinlega gaurinn vera hliðarsjálf, en segist sjálfur forðast allt leiðinlegt. Fréttablaðið/GVA
„Ég byrjaði með síðuna í lok árs 2010 af því mér fannst fyndið að vera með hliðarsjálf sem hefði allt á hornum sér og gæti drullað yfir allt og alla,“ segir Vilhjálmur Pétursson, betur þekktur sem Villi, þýðandi og maðurinn á bak við Facebook-síðuna Leiðinlegi gaurinn sem hefur tæplega 8.000 fylgjendur.

Leiðinlegi gaurinn skrifar færslur og athugasemdir um málefni líðandi stundar þar sem hann hlífir engum og gerir óspart grín að mönnum og málefnum.

„Ég hafði verið með moggablogg undir sama nafni þar sem ég bloggaði bara um leiðinlegar fréttir, af því moggabloggarar voru alger plága hérna fyrir nokkrum árum. Nú eru þeir allir komnir í kommentakerfin. Facebook gaf þessu grundvöll fyrir miklu betra grín. Facebook er svo þægilegur vettvangur fyrir svona lagað, þetta er eins og að skrifa örsögur og maður veit að nokkur þúsund manns munu lesa hana,“ útskýrir Villi sem segir síðuna grundvöll fyrir grín.

tæplega 8.000 fylgjendur Leiðinlegi gaurinn er vinsæll á Facebook. MYND/SKJÁSKOT
„Stundum beiti ég kaldhæðni og stundum meina ég hvert einasta orð. Hugmyndin í dag er allt önnur en hún var fyrst, þá var þetta eins og að hreyta ónotum í gangandi vegfarendur. Nú reyni ég að vera ekki bara alger fáviti að tilefnislausu, það eru yfirleitt einhver skilaboð á bak við þetta. Ég vona bara að leiðindin gleðji sem flesta,“ bætir hann við og hlær. 

Vilhjálmur hefur almennt fengið góð og mikil viðbrögð við færslunum.

„Jú, ég hef fengið einhver hatursbréf en það er frekar skemmtilegt að tækla það. Ég get ekki sagt að ég hafi verið misskilinn, eða að ég hafi ekki verið misskilinn. Fólk má skilja þetta hvernig sem það vill. Það er ekki í mínum höndum.“

En er Vilhjálmur sjálfur leiðinlegur? 

„Þar sem leiðinlegi gaurinn er hliðarsjálf er ég í raun aldrei leiðinlegi gaurinn. Ég vinn við að horfa á sjónvarpsþætti sem er geðveikt og þegar ég er ekki að vinna reyni ég að forðast allt sem er leiðinlegt og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.