Lífið

Syngur Gay Pride-lagið í fyrsta sinn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigríður Beinteinsdóttir syngur Gay Pride-lagið í ár sem ber titilinn Á þitt vald.
Sigríður Beinteinsdóttir syngur Gay Pride-lagið í ár sem ber titilinn Á þitt vald. vísir/gva
„Já, þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt Pride-lagið og er mjög ánægð með lagið,“ segir tónlistarkonan Sigríður Beinteinsdóttir en hún syngur lagið Á þitt vald sem er Gay Pride-lag ársins 2014. Lagið hefur verið í spilun á útvarpsstöðvum landsins og ætlar Sigga að flytja það um helgina. „Ég syng það á Arnarhóli á morgun og hlakka mikið til, þessi hátíð er svo frábær og vonandi verður veðrið ágætt,“ bætir Sigga við.

Hægt er að hlusta á lagið hér að neðan.

Lagið sömdu þær Ylva og Linda Person en þær eru sænskar og hafa samið fjölda popplaga sem náð hafa langt. „Ég þekki þær ekki neitt og hef aldrei séð þær en þær sendu mér upphaflega nokkur demó og þetta lag greip ég strax. Lagið var sent í forkeppni Eurovision en komst ekki áfram og fannst mér það mjög skrítið miðað við hvað lagið er hresst og mikið stuð í því,“ útskýrir Sigga.

Höfundunum var svo boðið að lagið yrði Gay Pride-lagið í ár og voru gerðar smábreytingar á því. „Þorvaldur Bjarni útsetti lagið og setti meiri diskóbrag á það en það var rokkaðra áður. Ég elska þetta lag, við í Stjórninni tókum lagið meira að segja um verslunarmannahelgina á Akureyri og fólk tók mjög vel í það.“

Sænsku lagahöfundarnir ætla einnig að syngja bakraddir með Siggu á laugardaginn á Arnarhóli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×