Viðskipti innlent

Hagnaður álversins á Grundartanga um 3,2 milljarðar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verksmiðja Norðuráls á Grundartanga.
Verksmiðja Norðuráls á Grundartanga. Vísir/Vilhelm
Hagnaður af rekstri álversins á Grundartanga nam 27,6 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári, jafnvirði 3,2 milljarða króna. Árið 2012 skilaði reksturinn jákvæðri afkomu upp á 46,6 milljónir dala og dróst hagnaðurinn því saman um 41 prósent milli ára.

„Við erum stolt af rekstri álversins og heilt á litið er uppgjörið ágætt miðað við aðstæður,“ segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls. Hann bendir á að álverð var talsvert lægra árið 2013 en 2012.

„Við höfum rekið álverið með hagnaði síðustu árin og höfum náð miklum árangri í rekstrinum. Allar okkar lykiltölur eru mjög góðar. Þetta á við um framleiðni, öryggismál og umhverfismál,“ segir Ragnar.

Samkvæmt ársreikningi Norðuráls Grundartanga ehf. fyrir árið 2013, sem fyrirtækið skilaði til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra í síðustu viku, greiddi það 718 milljónir króna í tekjuskatt vegna hagnaðarins á árinu.

„Sumir hafa sagt að hagkvæmni álvera á Íslandi byggist á lágu orkuverði. Það er fjarri sanni. Það eru gæði framleiðslunnar og forskotið sem fyrirtækin hafa sem er krítískt í vexti og viðgangi álframleiðslunnar. Raforkuverð til álvera á Íslandi er til dæmis hærra en í Miðausturlöndum, en álver þar sækja í auknum mæli inn á Evrópumarkað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×