Lífið

Grófari og skrítnari en áður

Freyr Bjarnason skrifar
Hugleikur Dagsson er þegar byrjaður að "fikta“ í handritinu fyrir nýju þáttaröðina.
Hugleikur Dagsson er þegar byrjaður að "fikta“ í handritinu fyrir nýju þáttaröðina.
„Við ætlum að vera grófari og kannski skrítnari líka,“ segir Hugleikur Dagsson, myndasagnahöfundur.

Ákveðið hefur verið þáttaröðin Hugleikur 2 verði á dagskrá Ríkissjónvarpsins á næsta ári, líklega um haustið. Hugleikur, bróðir hans Þormóður, Lóa Hjálmtýsdóttir og Árni Vilhjálmsson, sem skrifuðu handritið að fyrri þáttaröðinni, eru þegar búin að skrifa framhaldið.

Hugleikur er samt þessa dagana að setja inn viðbætur „Ég mun fikta í handritinu fram að upptökum. Þegar það er grín þarf að tékka reglulega á því hvort það er enn þá fyndið. Grín rotnar svo fljótt, svolítið eins og „horror“. „Það sem er fyndið eða „skerí“ einu sinni er það kannski ekki í dag,“ segir hann.

Að sögn Hugleiks var fyrsta þáttaröðin skrifuð þannig að ekki átti að þóknast neinum sérstökum. „Það var ekki miðað við neitt sem okkur var sagt að væri fyndið. Við ætlum að fara með sama hugarfari inn í seríu tvö. Við greinilega fórum ekki nógu langt síðast til að vera bönnuð eða eittthvað, þannig að við ætlum að reyna að ganga lengra núna en hafa samt þennan mannlega þátt með.“

Þættirnir verða átta og RVK Studios framleiðir. Á meðal efnis eru fegurðarsamkeppni, fótbolti og trúarbrögð, og Eurovision. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×