Lífið

Forsíðuviðtal Lífsins: Leiklistin er karakter-túrismi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Salóme segir það eiga vel við sig að vera ekki of skuldbundin á einum samningi heldur geta verið með mörg spennandi járn í eldinum.
Salóme segir það eiga vel við sig að vera ekki of skuldbundin á einum samningi heldur geta verið með mörg spennandi járn í eldinum. vísir/vilhelm
Salóme R. Gunnarsdóttir útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskólans fyrir rúmu ári og hefur ekki setið auðum höndum. Hún eyddi síðastliðnum vetri á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu og hefur tekið að sér ólík kvikmynda- og sjónvarpshlutverk síðasta árið.

Mér líkar strax einstaklega vel við þessa ungu konu þegar hún býður mér súkkulaðið sitt sem fylgir kaffibollanum. „Ég borða ekki svona, ekki nema það sé mjög dökkt. Og ekki mjólk, egg, kjöt, fisk eða kjúkling,“ segir hún. Með tvo súkkulaðibita í munninum spyr ég hvort hún sé með ofnæmi eða sé bara svona heilsusamleg.

„Ef þetta snerist um heilsuna hefði ég enga sjálfstjórn. Þá væri ég alltaf að stelast í mjólkursúkkulaði og fína osta. Nei, ég ákvað að gerast grænkeri af pólitískum og siðferðislegum ástæðum. Ég gat ekki slitið hugmyndina um dýrið frá matnum og framleiðsluhættirnir á dýraafurðum fannst mér ekki boðlegir. Ég mótmæli þeirri hugmynd um að maðurinn sé sjálfskipaður konungur heimsins og að við getum átt þræla í búrum sem eru framleiðslutæki, svo við getum fengið okkur eitthvað sérstakt ofan á brauð. En það að vera grænkeri er alls ekki sama og að vera heilsusamlegur. Ég gæti borðað franskar í öll mál.“

Með Sirkús Íslands
Með ríka réttlætiskennd

Salóme segist hafa tekið ákvörðun um að hætta að blekkja sjálfa sig varðandi matinn. Hún eigi þó langt í land með að vera fylgin sér á öllum sviðum lífsins.

„En ég loka enn augunum fyrir mörgu. Fötin mín eru líklegast flest saumuð af börnum í þróunarlöndum og unnin með hrikalegum efnum sem fara svo út í vatnsból sem menga fyrir einhverju fólki. En ég þarf aldrei að sjá það og loka augunum fyrir því. Enn þá,“ segir Salóme glettin. 

Salóme hefur ríka réttlætiskennd og hefur þörf fyrir að láta gott af sér leiða. Þess vegna fór hún 19 ára, nýútskrifuð úr MH, til Ekvador að sinna hjálparstarfi í hálft ár sem sjálfboðaliði. „Þetta heitir hjálparstarf en ég var svo innilega að gera þetta fyrir sjálfa mig og ég græddi svo mikið á þessu. Ég veit að ég lærði miklu meira en krakkarnir sem ég var að kenna.“ 

Við tökur á myndinni Autumn Lights
Tók þrjú ár í lögfræði 

Þegar hún kom heim skráði hún sig í lögfræði í Háskóla Íslands. Henni hafði alltaf gengið vel í skóla og fannst eins og duglegir nemendur ættu að fara í „skynsamlegt“ nám.

„Ég ætlaði að samtvinna réttlætiskenndina og námshæfileikana, og stunda grasrótar-hjálparstarf í útlöndum þegar ég yrði stór. Þegar ég var komin á þriðja ár í lögfræðinni horfðist ég í augu við að þetta væri ekki réttur vettvangur fyrir mig.“ 

Salóme hafði alltaf verið með puttana í leiklist. Hún stofnaði leikfélag sem krakki, var í leikfélagi MH á menntaskólaárunum, vann í Götuleikhúsinu á sumrin og nýtti sér fimleikahæfileikana í Sirkusi Íslands. Þegar hún stundaði lögfræðinám var hún svo upptekin við að setja upp sýningar með Stúdentaleikhúsinu að hún hafði engan tíma fyrir námið.

„Þegar ég horfi til baka sé ég að ég var alltaf að hundsa skilaboðin. Ég lét alltaf eins og leiklistin væri bara skemmtilegt áhugamál en ég þyrfti að feta hinn hefðbundna menntaveg. Þegar ég hætti í Stúdentaleikhúsinu til að einbeita mér að lögfræðinni uppgötvaði ég að leikhúsið var það eina sem hélt mér í náminu. Þá var akkúrat inntökupróf í leiklistarskólann sem ég skráði mig í og komst inn. Alltaf þegar ég reyndi að hætta í leiklist þá ýtti lífið mér til baka. Ég er svo þakklát fyrir það enda hefur mér aldrei fundist ég vera á jafn réttum stað í lífinu.“ 

Baksviðs í Spamalot l Með Sirkus Íslands l Við tökur á myndinni Autumn Lights
Hissa týpan í Stelpunum

Salóme skrifaði undir samning hjá Þjóðleikhúsinu áður en hún útskrifaðist úr leiklistinni. Hún lék í Óvitum, Þingkonunum, Spamalot og Eldrauninni á síðasta leikári ásamt því að sinna öðrum verkefnum eins og Hrauninu, París norðursins og Stelpunum.

„Þetta eru allt mjög ólík verkefni. Drama og grín, stórar uppfærslur og minni. Það er einmitt þannig sem ég fæ útrás í gegnum leiklistina. Þetta er ákveðin ferðamennska þar sem maður fer í heimsókn til mismunandi einstaklinga, á mismunandi tímum, í mismunandi löndum og í mismunandi aðstæðum. Það er svo frábært við þessa vinnu að fá að upplifa ólíkar tilverur og fá að gægjast inn. Þetta er svona karakter-túrismi!“ 

Salóme hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína í Stelpunum. Hún segist þó vera heldur óvön hlutverki sínu þar.

„Mér hefur alltaf fundist ég vera þessi skrítna í öllum hópum. En í þessum þáttum leik ég nánast alltaf „venjulegu“ manneskjuna. Ég er orðin mjög góð í að vera voða hissa og sitja eftir hálfgapandi,“ segir Salóme en gott dæmi um það er atriðið Bölsýna konan, sem sjá má neðst í greininni.

„Það er annars svo gaman að vera hluti af þessum hópi. Konurnar í Stelpunum eru svo öflugar og mér finnst ég fá aukinn kraft við að sjá svona flottar píur taka málin í sínar hendur og skrifa svona gott efni. Svo eru þættirnir bara svo fyndnir. Ég er búin að lesa öll atriðin en hlæ samt alltaf að þessu heima í stofu.“

vísir/vilhelm
Fráskilin og í lausu lofti

Salóme er ekki lengur fastráðin hjá Þjóðleikhúsinu en er með mörg spennandi járn í eldinum.

„Ég er í lausu lofti og það á rosalega vel við mig. Eins magnað og það var að skrifa undir samning við Þjóðleikhúsið þá kraumaði í mér smá skuldbindingarfælni.“ 

Talandi um skuldbindingar. Er hún líka skuldbindingafælin í einkalífinu? „Ég er sko fráskilin,“ segir hún og hlær þegar hún sér svipinn á blaðamanni sem bjóst ekki við þessu svari frá 26 ára konunni. „Eða sko, ég var ekki gift í hefðbundnum skilningi. Ég átti ástralskan kærasta og til að við gætum prófað að búa saman lengur en í þrjá mánuði skelltum við okkur til sýslumanns og skrifuðum undir pappíra.“ 

Fylgir vindáttinni

Eftir alls kyns fjarbúðarbras skildi leiðir hjá ungu hjónunum. „Ég er orðin mikill talsmaður hjónabands eftir skilnaðinn. Því það er svo erfitt að hætta í sambandi en af því að við vorum gift þurftum við að hittast, skrifa undir pappíra og fara í gegnum ákveðið ferli. Við fórum til sýslumanns og fengum stimpil. Þá var sagt við mig að ég væri skilin að borði og sæng og ég ætti að halda á blaðinu heima og gera mér grein fyrir því næsta hálfa árið. Eftir hálft ár fékk ég lögskilnað og svona hálfgert viðurkenningarskjal. Ég fann að þungu fargi var af mér létt. Það er bara mjög fínt að hafa þetta tilfinningaferli á blaði í embættismannakerfi.“

Salóme er sem sagt einhleyp en hún segist lítið hugsa um það. „Ég pæli ekkert í því hvort ég sé með einhverjum eða ekki. Stundum koma sambönd fyrir mann og stundum ekki. Ég er meira að hlusta á vindáttina í mínu lífi og fylgja henni. Akkúrat núna er hún þannig að ég nýt þess að vinna og það er yndislegt,“ segir Salóme full tilhlökkunar að takast á við ný og spennandi verkefni í vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×