„I'll be back“ Sif Sigmarsdóttir skrifar 17. október 2014 07:00 Pistlaskrif mín á þessari leiðaraopnu byggjast á þeirri hugmynd að fátt skipti meira máli en stjórnmál. Er það starf mitt að velta upp og svara mikilvægum spurningum á borð við: Hvað er grænna en íslenskur torfbær? Getur verið að ástæða þess að svo lítið hefur sést til Samfylkingarinnar undanfarið sé sú að hún hafi fundið upp huliðsskikkju í anda Harry Potter og er nú með hana í beta-prófunum? Er framsóknarkonan Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir í raun gjörningur, svona eins og Silvía Nótt, runnin undan rifjum hins unga og uppátækjasama útvarpsstjóra sem hyggst með leikþættinum spara RÚV kostnað við handritagerð Áramótaskaupsins sem skrifar sig nú sjálft þökk sé Sveinbjörgu og félögum. Ég vaknaði hins vegar upp við vondan draum í vikunni.Pungur á þorra Gamanleikarinn John Cleese, sem þekktastur er fyrir að tilheyra grínleikhópnum Monty Python, hafði allt á hornum sér í upphafi viku er hann kynnti nýja sjálfsævisögu sína á bókmenntahátíðinni í Cheltenham á Englandi. Bugaður af fortíðarþrá fann hann samtímanum allt til foráttu. „Hlutirnir voru miklu betri þegar ég var ungur.“ Hann kenndi áreiti frá snjallsímum um að ganga af sköpunargáfu fólks dauðri. „Fólk heldur að það sé að nota tækni en áttar sig ekki á að tæknin er að nota það.“ Freistandi er að afskrifa orð Cleese sem gífuryrði gamlingja sem lífið hefur leikið um eins og mysa; maðurinn er jafnsúr og pungur á þorra. Við nánari athugun kemur hins vegar í ljós að í þeim leynist sannleikskorn, dómsdagsspá uggvænlegri en Cleese sjálfur áttaði sig á jafnvel þótt hann væri á bólakafi í sýrukerinu.Stærstu mistök mannkynssögunnar Þrátt fyrir að landbúnaðarbyltingin sé lofuð í sögubókum sem ein mesta framför mannkynsins er hún ein stærstu mistök sögunnar. Þessu heldur ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari fram í bók sinni Sapiens: A Brief History of Humankind sem er nýjasta undur útgáfuheimsins, yfirlætislaust fræðirit sem kom fyrst út á hebresku en hefur nú verið þýtt á næstum þrjátíu tungumál. Í 2,5 milljón ár lifði ættkvísl mannsins góðu lífi sem veiðimenn og safnarar. En svo kom landbúnaðarbyltingin. Maðurinn tók að vinna baki brotnu – bókstaflega, uppgreftir fornleifafræðinga sýna að brjósklos tók að herja á manninn með landbúnaði. Vinnustundum sem fóru í fæðuöflun fjölgaði, fæðuúrval dróst saman, matur sem neytt var varð næringarsnauðari, hungursneyð færðist í aukana vegna uppskerubrests. Lífsgæði minnkuðu. En hver græddi á landbúnaðarbyltingunni? Samkvæmt bók Harari er það augljóst. Plantan hveiti. Hveiti var eitt sinn ómerkileg grastegund sem mátti sín lítils. Í dag þekur korntegundin 2,25 milljón ferkílómetra lands. Þýlyndir herskarar fólks helga sig því að þjónusta hana, hlúa að henni, vökva hana og vernda hana gegn árásum meindýra. „Það var hveitið sem hneppti manninn í þrældóm sér til framdráttar en ekki öfugt,“ segir í bók Harari.Hættulegri en kjarnorkusprengjan „Fólk heldur að það sé að nota tækni en áttar sig ekki á að tæknin er að nota það.“ Þótt John Cleese hafi vafalaust látið þessi orð falla í því skyni að vekja umtal og selja fleiri eintök af bókinni sinni – hann er jú þrífráskilinn og að eigin sögn að bugast undan meðlagsgreiðslum – vekja orð hans upp spurningu sem varðar framtíð mannkynsins alls. Hver er að nota hvern? Löngu áður en vöðvabúntið Arnold Schwarzengger hótaði því að snúa aftur í kvikmyndinni Tortímandinn hefur maðurinn velt fyrir sér þeim ógnum sem stafa af tækni. Áhyggjur af gervigreind virðast vera að færast í aukana meðal þeirra sem starfa innan vísindanna. Ekki alls fyrir löngu varaði tæknifjárfestirinn Elon Musk, einn af fyrstu fjárfestum PayPal og framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla, við því að gervigreind gæti reynst manninum hættulegri uppfinning en kjarnorkusprengjan. Framtíð okkar mun í stórum dráttum ráðast utan veggja þinghúsa sama hverju haldið er fram á leiðaraopnum blaða. Aðalvendingar mannkynssögunnar munu ekki verða af völdum stjórnmálamanna, ekki frekar en landbúnaðarbyltingin. Hveiti lagðist upp á manninn, húkkaði sér far, hékk á honum eins og sníkjudýr á hýsli og drottnar nú yfir jörðinni. Er sagan að endurtaka sig nema hvað nú er sníkjudýrið tækni? Fæstir kæra sig um svarið með morgunkaffinu. Því er best að stinga höfðinu í sandinn, láta eins og steinkofi við Austurvöll sé miðja alheimsins og halda áfram að eyða dálksentimetrum í spurningar eins og: Eru tengsl á milli hins úfna skaps forsætisráðherra sem Össur Skarphéðinsson ræddi í pontu í þingsal í vikunni og nýlegra frétta þess efnis að forsætisráðherrann sé farinn að láta snyrta á sér úfnar augabrúnirnar þegar hann fer í klippingu? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun
Pistlaskrif mín á þessari leiðaraopnu byggjast á þeirri hugmynd að fátt skipti meira máli en stjórnmál. Er það starf mitt að velta upp og svara mikilvægum spurningum á borð við: Hvað er grænna en íslenskur torfbær? Getur verið að ástæða þess að svo lítið hefur sést til Samfylkingarinnar undanfarið sé sú að hún hafi fundið upp huliðsskikkju í anda Harry Potter og er nú með hana í beta-prófunum? Er framsóknarkonan Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir í raun gjörningur, svona eins og Silvía Nótt, runnin undan rifjum hins unga og uppátækjasama útvarpsstjóra sem hyggst með leikþættinum spara RÚV kostnað við handritagerð Áramótaskaupsins sem skrifar sig nú sjálft þökk sé Sveinbjörgu og félögum. Ég vaknaði hins vegar upp við vondan draum í vikunni.Pungur á þorra Gamanleikarinn John Cleese, sem þekktastur er fyrir að tilheyra grínleikhópnum Monty Python, hafði allt á hornum sér í upphafi viku er hann kynnti nýja sjálfsævisögu sína á bókmenntahátíðinni í Cheltenham á Englandi. Bugaður af fortíðarþrá fann hann samtímanum allt til foráttu. „Hlutirnir voru miklu betri þegar ég var ungur.“ Hann kenndi áreiti frá snjallsímum um að ganga af sköpunargáfu fólks dauðri. „Fólk heldur að það sé að nota tækni en áttar sig ekki á að tæknin er að nota það.“ Freistandi er að afskrifa orð Cleese sem gífuryrði gamlingja sem lífið hefur leikið um eins og mysa; maðurinn er jafnsúr og pungur á þorra. Við nánari athugun kemur hins vegar í ljós að í þeim leynist sannleikskorn, dómsdagsspá uggvænlegri en Cleese sjálfur áttaði sig á jafnvel þótt hann væri á bólakafi í sýrukerinu.Stærstu mistök mannkynssögunnar Þrátt fyrir að landbúnaðarbyltingin sé lofuð í sögubókum sem ein mesta framför mannkynsins er hún ein stærstu mistök sögunnar. Þessu heldur ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari fram í bók sinni Sapiens: A Brief History of Humankind sem er nýjasta undur útgáfuheimsins, yfirlætislaust fræðirit sem kom fyrst út á hebresku en hefur nú verið þýtt á næstum þrjátíu tungumál. Í 2,5 milljón ár lifði ættkvísl mannsins góðu lífi sem veiðimenn og safnarar. En svo kom landbúnaðarbyltingin. Maðurinn tók að vinna baki brotnu – bókstaflega, uppgreftir fornleifafræðinga sýna að brjósklos tók að herja á manninn með landbúnaði. Vinnustundum sem fóru í fæðuöflun fjölgaði, fæðuúrval dróst saman, matur sem neytt var varð næringarsnauðari, hungursneyð færðist í aukana vegna uppskerubrests. Lífsgæði minnkuðu. En hver græddi á landbúnaðarbyltingunni? Samkvæmt bók Harari er það augljóst. Plantan hveiti. Hveiti var eitt sinn ómerkileg grastegund sem mátti sín lítils. Í dag þekur korntegundin 2,25 milljón ferkílómetra lands. Þýlyndir herskarar fólks helga sig því að þjónusta hana, hlúa að henni, vökva hana og vernda hana gegn árásum meindýra. „Það var hveitið sem hneppti manninn í þrældóm sér til framdráttar en ekki öfugt,“ segir í bók Harari.Hættulegri en kjarnorkusprengjan „Fólk heldur að það sé að nota tækni en áttar sig ekki á að tæknin er að nota það.“ Þótt John Cleese hafi vafalaust látið þessi orð falla í því skyni að vekja umtal og selja fleiri eintök af bókinni sinni – hann er jú þrífráskilinn og að eigin sögn að bugast undan meðlagsgreiðslum – vekja orð hans upp spurningu sem varðar framtíð mannkynsins alls. Hver er að nota hvern? Löngu áður en vöðvabúntið Arnold Schwarzengger hótaði því að snúa aftur í kvikmyndinni Tortímandinn hefur maðurinn velt fyrir sér þeim ógnum sem stafa af tækni. Áhyggjur af gervigreind virðast vera að færast í aukana meðal þeirra sem starfa innan vísindanna. Ekki alls fyrir löngu varaði tæknifjárfestirinn Elon Musk, einn af fyrstu fjárfestum PayPal og framkvæmdastjóri rafbílaframleiðandans Tesla, við því að gervigreind gæti reynst manninum hættulegri uppfinning en kjarnorkusprengjan. Framtíð okkar mun í stórum dráttum ráðast utan veggja þinghúsa sama hverju haldið er fram á leiðaraopnum blaða. Aðalvendingar mannkynssögunnar munu ekki verða af völdum stjórnmálamanna, ekki frekar en landbúnaðarbyltingin. Hveiti lagðist upp á manninn, húkkaði sér far, hékk á honum eins og sníkjudýr á hýsli og drottnar nú yfir jörðinni. Er sagan að endurtaka sig nema hvað nú er sníkjudýrið tækni? Fæstir kæra sig um svarið með morgunkaffinu. Því er best að stinga höfðinu í sandinn, láta eins og steinkofi við Austurvöll sé miðja alheimsins og halda áfram að eyða dálksentimetrum í spurningar eins og: Eru tengsl á milli hins úfna skaps forsætisráðherra sem Össur Skarphéðinsson ræddi í pontu í þingsal í vikunni og nýlegra frétta þess efnis að forsætisráðherrann sé farinn að láta snyrta á sér úfnar augabrúnirnar þegar hann fer í klippingu?