Lífið

Stikla fyrir hlutverkaspil á Snæfellsnesi

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Stiklan var tekin upp í Landbroti á Snæfellsnesi.
Stiklan var tekin upp í Landbroti á Snæfellsnesi. mynd/republik film productions
Stikla fyrir þýska hlutverkaspilið Degenesis, sem tekin var upp á Íslandi, er nú komin út. Um er að ræða borðspil þar sem hver þátttakandi hefur sitt hlutverk og leikur eina persónu, oft í ævintýralegum eða goðsögulegum heimi. Í stiklunni má sjá þrjá ófrýnilega stríðsmenn hrella ungt par og son þess í óbyggðum. Sonurinn reynist síðan hafa yfirnáttúrulega krafta því hann rekur upp stríðsóp sem skekur jörðina.

Stiklan var tekin upp fyrir ári á Snæfellsnesi, nánar tiltekið í Landbroti. „Þeir voru að leita að einhverri heimsendasýn, einhverjum nöturleika og gróðursnauð,“ segir Sæmundur Norðfjörð, framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Republik Film Productions sem þjónustaði verkefnið. Fyrirtækið sá meðal annars um að finna tökustað og leikara.

„Við ákváðum að nota þessa staðsetningu af því að landslag og náttúra Íslands passaði fullkomlega við heimsendaþema Degenesis-leiksins,“ er haft eftir Volker Steinmetz, framleiðanda leiksins, á síðunni Thelocationguide.com.

Athygli vekur að tvíburarnir Antoine og Lucas Liebing léku báðir drenginn en þeir þurftu að skiptast á til að mæta sextán klukkutíma vinnudeginum. 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×