Lífið

Náttúruvernd gerir alla auðugri

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég vil taka þátt í að skila einhverju inn í hugsun kynslóðanna því við mennirnir erum bara lítill hluti af náttúrunni en berum mikla ábyrgð,“ segir Brynja.
"Ég vil taka þátt í að skila einhverju inn í hugsun kynslóðanna því við mennirnir erum bara lítill hluti af náttúrunni en berum mikla ábyrgð,“ segir Brynja. vísir/Vilhelm
Nokkrir sætir spörvar brosa við mér úr glerskáp á ganginum hjá Brynju Davíðsdóttur. Fuglar sem hún hefur stoppað upp sjálf. Við tyllum okkur í eldhúsinu og hún býður upp á te úr sigurskúfi frá Teigarhorni. Það smakkast ljómandi vel. Þetta heitir að lifa á landsins gæðum og ég spyr hvort hún hafi snemma fengið áhuga á náttúrunni.

„Ég elst upp sem hluti af náttúrunni. Mamma og pabbi voru líklega hippar þegar ég var að alast upp. Þau voru grænmetisætur, við bjuggum á Laugarvatni og ræktuðum mikið heima. Manni var kennt að lifa í sátt við náttúruna og taka eftir öllu. Ég er samt sú eina af þremur systkinum sem hef það svona sterkt í mér.

Mamma, Janice Balfour, er alger náttúruunnandi, þannig að ég á ekki langt að sækja þann áhuga en hef kannski fengið vísindahliðina meira frá pabba, Davíð Þorsteinssyni, hann er eðlisfræðingur og rosalegur pælari. Verkvitið hef ég frá þeim báðum, mamma spinnur og prjónar og pabbi smíðaði og gerði við bíla þegar ég var að alast upp ásamt því að taka ljósmyndir og framkalla heima. Ég hef alltaf haft gaman af verkfærum, fór alltaf með pabba í Brynju og tengdi mig vel við þá verslun. Að leiðast út í uppstoppun var því eðlilegt fyrir mig.“

Tign yfir kríunum

Brynja á tuttugu ára starfsafmæli sem hamskeri. „Ég fór til Bretlands tæpra nítján ára með námsstyrk frá menntamálaráðuneytinu og var í þrjú ár að læra fagið. Einbeitti mér að því að stoppa upp fugla þó ég hafi líka lært vinnubrögðin við stærri dýr. Ég var ekki að hugsa um hvernig ég mundi framfleyta mér heldur var það sterkur áhugi sem réð þessu vali. Það hafði líka áhrif að þegar ég var barn fannst mér uppstoppaðir fuglar sem ég sá, á Náttúruminjasafninu og víðar, ekki vera nógu eðlilegir því ég vissi nákvæmlega hvernig þeir líta út í lífinu.

Hún kveðst hafa sérhæft sig í smáfuglum. Skyldi ekki vera vandasamast af öllu að handfjatla þá?

„Ef maður venst á að vinna við stóra hluti þá tapar maður vissri tilfinningu og fínhreyfingum. Mér finnst þeir bara svo fallegir þessir litlu fuglar, en auðvitað er allt í þeim voða viðkvæmt og smátt og þegar verkið er búið þá er það bara pínulítið. En aðalatriðið er að hugsa um tegundina sem maður er með milli handanna hverju sinni og skila henni eins vel uppstoppaðri og hægt er, svo hún geymist.“

Auðnutittlingar eru í uppáhaldi hjá Brynju og ekki síður kríurnar. „Mér finnst kríur ofboðslega fallegar, það er svo mikil tign yfir þeim og þær eiga sér þessa löngu ferðasögu því þær fljúga alla leið til Suðurskautslandsins yfir veturinn. Vaðfuglar eru æðislegir líka en ég stoppa allt upp, líka hrútshausa og tófur. Frábærast finnst mér þegar fólk kemur með smáfugla til mín, það er svo skemmtilegt að vinna fyrir fólk sem hefur fugla heima. Þegar litlir krakkar koma í heimsókn til mín fara þeir beint í fuglana og ég man hvað mér þóttu dýr áhugaverð þegar ég var lítil. Þetta er það sem ég vil skila til Íslands, að ýta undir náttúrufræðslu.“

Brynja kveðst engin bisnesskona vera og ekki hafa áhuga á að stoppa upp fyrir verslanir sem selji lunda bara peninganna vegna. Tilgangurinn þarf að vera æðri. „Ég vil taka þátt í að skila einhverju inn í hugsun kynslóðanna því við mennirnir erum bara lítill hluti af náttúrunni en höfum mikil áhrif.“

Henni finnst synd að Náttúruminjasafn Íslands skuli enn vera á hrakhólum og stórmerkir gripir þess ekki til sýnis. „Það er okkar grundvallarréttur að eiga slíkt safn til að efla skilning á vistkerfinu og sérstæðri náttúru Íslands. Það gerist ekki nema með jákvæðri kennslu. Bóknám virkar ekki fyrir alla en með því að snerta hluti og skoða fæst tilfinning fyrir þeim,“ segir hún og bætir við: „Fólk er orðið svo mikið yfir tölvunum. Ég á unglinga og hef reynt að ala þá upp í mínum anda en sé hvað tölvuheimurinn tekur stóran hluta af lífi þeirra.“





Geislasteinar eru einstakir. Fréttablaðið/GVA
Mekka geislasteinanna

Brynja segir langt frá því að hún lifi af uppstoppuninni þó hún vildi. „Mér finnst leiðinlegt að svona kunnátta fari forgörðum því maður þarf að halda sér í þjálfun. En ég stunda þetta bara með öðru, lauk mastersprófi í umhverfis- og náttúrufræði við Landbúnaðarháskólann 2013 og hef unnið við vörslu á Teigarhorni við Berufjörð tvö síðustu sumur.“

Það passar. Ég hitti hana einmitt á Teigarhorni síðasta vor er ég var þar á ferð og það var upplifun að heyra hana segja frá.

„Teigarhorn er heimsþekktur fundarstaður geislasteina og eintök þaðan eru á söfnum um allan heim. Margir útlendingar líta á staðinn sem mekka. „ Vá, nú erum við á Teigarhorni,“ segja þeir með lotningu, taka myndir af bæjarskiltinu og ganga með mér niður í fjöru. Íslendingar koma í ríkari mæli inn í safnið og fræðast þar, þeir vita oft minna um staðinn en útlendingarnir. Ég áfellist þá ekki. Þótt ég hafi náttúrufræðiþekkingu sem bakgrunn þá vissi ég akkúrat ekkert um þessa kristallategund fyrr en ég kom austur.“

Hluti af vinnu Brynju á vorin er að safna æðardúni. „Bæði Íslendingar og útlendingar hafa gaman af að sjá dúninn. Ég stoppaði líka upp æðarpar, kollan liggur á hreiðri og blikinn er hjá henni. Það kveikir umræðu og aðdáun og slík pæling er mikilsverð því náttúruvernd gerir alla auðugri.“

Teigarhorn var búið að vera í einkaeigu sömu fjölskyldu í 140 ár, hún bar ættarnafnið Waywadt. „Þetta var náttúruelskandi menntafólk sem skilaði mikilli vinnu til þjóðarinnar, skráði niður komutíma farfugla, safnaði geislasteinum og lét söfnum um allan heim sýnishorn í té. Hún hélt líka úti veðurfarsathugunum svo Teigarhorn er ein elsta veðurstöð á landinu. Þá skildi hún eftir sig forkunnarfallegt hús sem Þjóðminjasafnið hefur nú gert upp að utan. Að ekki sé talað um ljósmyndirnar sem Nikoline Waywadt tók og eru æðislegar heimildir og mikil listaverk. Hún var fyrsta konan á Íslandi sem lærði ljósmyndun.“





„Teigarhornsjörðin er rík og einstaklega falleg frá náttúrunnar hendi.“Fréttablaðið/GVA
Brynja segir það hafa verið mikla áskorun að fara að vinna á þessari merkisjörð þegar ríkið tók við henni fyrir tveimur árum. „Ég var bara að stoppa upp fugla fyrir Djúpavogshrepp, nýútskrifuð frá Landbúnaðarháskólanum þegar ég fékk símhringingu og mér var boðið þetta starf. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég hef fengið að glíma við. Líka svo nýtt og í algerri mótun. Jörðin hafði verið ábúendalaus um tíma og þar var framið stórt steinarán þannig að staðurinn átti erfitt tímabil en það breytir því ekki að saga hans í höndum Waywadt-fjölskyldunnar er blómleg og falleg.“

Brynja vinnur að því að koma upp steinasafni á Teigarhorni þar sem allt er flokkað eftir fundarstað. „Vonandi mun byggjast upp vísindastarfsemi í sambandi við geislasteinafræði á Teigarhorni,“ segir hún. „Ég hef þá framtíðarsýn að þetta verði náttúrufræðslujörð okkar Íslendinga og erlendir stúdentar geti komið þangað líka og unnið. Jörðin er rík og einstaklega falleg frá náttúrunnar hendi og vegna jarðmyndana einna og sér á hún erindi á heimsminjaskrá.“



Lætur sér aldrei leiðast


Unglingarnir hennar Brynju komu við sögu fyrr í viðtalinu, hún á soninn Bjarma, fimmtán ára, og dótturina Díönu, þrettán ára. Hvernig skyldi þeim líka á Teigarhorni? „Þeim líkar mjög vel. Díana var mikið hjá mér í sumar en Bjarmi minna, hann er fótboltastrákur og var líka á Vopnafirði að læra að verða veiðileiðsögumaður. Ég hvet þau til að fylgja sínum áhugamálum. Svo skruppu þau til föðurfjölskyldunnar á Ítalíu, þar sem við bjuggum þegar þau voru lítil,“ segir Brynja sem aðspurð kveðst aldrei láta sér leiðast. „Í lok september var samt orðinn stopulli gestagangur á Teigarhorni og gosið byrjað fyrir norðan. Þá fann ég að ég var alveg tilbúin að koma suður og sinna börnunum mínum sem eru hér í unglingaskóla. Annars er ég mikið sjálfri mér nóg og ef ég fæ að vera í náttúrunni þá er ég heima.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×