Gagnrýni

Kostulegur klassískur farsi

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Leiklist:

Beint í æð

Borgarleikhúsið

Höfundur: Ray Cooney

Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir

Íslensk staðfærsla: Gísli Rúnar Jónsson

Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir

Tónlist: Ólafur Björn Ólafsson

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen

Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Guðjón Davíð Karlsson, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda, Björnsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Sigurður Þór Óskarsson og Örn Árnason



Farsar eru einstaklega erfitt listform. Það er ekkert grín að sviðsetja grín. Fara verður eftir öllum reglum, tímasetningar verða að ganga upp og leikararnir verða að vinna af einlægni annars er voðinn vís. Beint í æð eftir Ray Cooney, frumsýnt síðastliðinn föstudag í Borgarleikhúsinu, uppfyllir ekki einungis ofanverðar kröfur heldur neglir þær.



Hilmir Snær Guðnason leikur hinn taugaveiklaða Jón Borgar, yfirlækni á Landakoti sem er í þann mund að halda mikilvægustu ræðu starfsferils síns. Hann verður fyrir stöðugum truflunum frá starfsfólki sem er á kafi að undirbúa litlu jólin, eiginkonunni sem er komin til að styðja hann og drykkfellda yfirmanninum sem krefst þess að ræðan verði óaðfinnanleg. En allt fer á annan endann þegar Díana Thors, leikin af Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, mætir á svæðið og tilkynnir Jóni Borgari að ástarævintýri þeirra fyrir sautján árum hafi leitt til fæðingar sonar sem hann vissi aldrei af.



Hilmir Snær ber sýninguna á herðum sér og er á sviði nær allan tímann. Þetta er kannski ekki hlutverk sem áhorfendur eru vanir að sjá hann í en þetta er vonandi ekki hans síðasta á grínsviðinu. Hann er algjörlega frábær og gefur sig allan í hlutverkið frá fyrsta augnabliki. Svitinn hreinlega bogar af honum á meðan hann reynir að fela sannleikann um soninn og ekki er hægt annað en að vorkenna hinum seinheppna Jóni. Það er stórgaman að sjá leikara skína í hlutverkum sínum og er Guðjón Davíð Karlsson alveg á heimavelli í hlutverki sínu sem Grettir Sig, taugaskurðlæknirinn sem býr ennþá heima hjá mömmu sinni. Hann er bráðfyndinn og finnur frábært jafnvægi á milli grínsins og einlægninnar. Slíkt er bara á færi fárra.



Verkið er þýtt og staðfært af Gísla Rúnari Jónssyni sem sýnir ávallt nær óaðfinnanleg vinnubrögð. Staðfærslan er fyndin án þess að vera yfirþyrmandi og orðagrínið er oft á tíðum algjörlega frábært.



Örn Árnason gerir sér lítið fyrir og hreinlega stelur senunni sem Mannfreð, elliæri sjúklingurinn sem dreymir um einkaherbergi á sjúkrahúsinu, helst með míníbar. Barátta hans við pottablóm og endurteknar tilraunir til að stela áfenginu fyrir litlu jólin eru óborganlegar. Leikgervin, sem Árdís Bjarnþórsdóttir hannar, eru virkilega vel gerð. Sigrún Edda Björnsdóttir er nánast óþekkjanleg sem Gróa, móðir Grettis, og á stórskemmtilega innkomu í seinniparti verksins. Hönnun sýningarinnar, sem er í höndum Helgu I. Stefánsdóttur, er að sama skapi virkilega vel gerð.



Allur leikhópurinn stendur sig með prýði og er hópurinn firnasterkur þrátt fyrir að það halli aðeins á leikkonurnar í sýningunni en Þórunn Arna Kristjánsdóttir á virkilega góða spretti sem stressaði yfirdeildarhjúkrunarfræðingurinn Jórunn.



Sýningin dalar aðeins strax eftir hlé og tók nokkra stund fyrir leikarana að ná upp sama tempóinu. Annars stjórnar Halldóra Geirharðsdóttir sýningunni af mikilli nákvæmni og keyrir hana á ofsahraða með tilheyrandi hurðaskellum og hlaupum. Hvert augnablik er nýtt til að kitla hláturtaugar áhorfenda og stundum heyrðust varla orðaskil í leikurunum fyrir hlátursrokunum úti í sal. Þessi sýning á bara eftir að verða betri.

Niðurstaða: Sprenghlægilegur farsi sem á eftir að slá í gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.