Lífið

Miklu fegurri kona í dag

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Helga Braga Jónsdóttir: „Það er bara eitthvað svo gaman að lifa, í alvöru!“
Helga Braga Jónsdóttir: „Það er bara eitthvað svo gaman að lifa, í alvöru!“ Vísir/Vilhelm
Hálf öld, takk fyrir, það verður sko partí!“ segir Helga Braga Jónsdóttir leikkona sem á fimmtugsafmæli í dag. „Reyndar bara fjölskylda og vinir sem ætla að hittast og fagna, en alvörupartí engu að síður.“



Spurð hvort hún muni ekki verja deginum í dekri segir Helga Braga það nú ekki alveg ganga upp. „Það þarf að græja snittur,“ segir hún og hlær.

„Systir mín, Ingveldur Ýr, hefur reyndar yfirumsjón með veitingum, en ég hjálpa til. Fór samt í ondúleringu í gærmorgun og skelli mér svo í smink fyrir partíið. Lét meira að segja klippa á mig topp í tilefni tímamótanna, hálfrar aldar topp.“



Fimmtugsafmælið er ekki eina afmælið sem Helga Braga fagnar í ár því hún á líka 35 ára leikafmæli og 25 ára útskriftarafmæli sem leikkona. Spurð hvað henni sé efst í huga við þennan áfanga grípur hún til klisjunnar og segir: „Þakklæti, vinir mínir, þakklæti,“ og skellihlær. „Ég er bara að springa úr hamingju,“ bætir hún við. „Það er bara eitthvað svo gaman að lifa, í alvöru!“



Helga Braga er á fullu í uppistandi, fyrirlestrahaldi og að skemmta á kvennakvöldum og segir það hafa verið aðalatvinnu sína síðan 1998, þótt hún hafi auðvitað alltaf verið að leika í leikhúsum, bíómyndum og sjónvarpsþáttum meðfram því. „Ég er bara að gera alls konar ofsalega skemmtilegt,“ segir hún.



„Mér líður svo miklu, miklu betur og ég lít miklu betur út en ég hef nokkurn tíma gert. Jú, ég var ógurlega krúttaralegt barn en ég er miklu fegurri kona núna en ég var um tvítugt eða þrítugt. Það er eins og það hafi bara ræst úr mér.“



Spurð hvort hún hafi einhver plön fyrir seinni hluta ævinnar neitar Helga Braga því en segist hins vegar hafa plön fyrir seinnihluta þessa mánaðar. „Ég er að fara til New York og á tónleika með Billy Joel í Madison Square Garden, hvorki meira né minna. Þar er langráður draumur loks að rætast. Það er ein af mörgum afmælisgjöfum sem ég gef sjálfri mér, ég er nefnilega búin að vera að gefa mér afmælisgjafir allt þetta ár, enda á ég svo mörg afmæli.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×