Lífið

Ljósmyndir frá Ástu í Vogue India

Freyr Bjarnason skrifar
Fyrirsætan Angela Jonsson í nágrenni Bláa lónsins á einni af myndunum sem birtust í Vogue India.
Fyrirsætan Angela Jonsson í nágrenni Bláa lónsins á einni af myndunum sem birtust í Vogue India. Mynd/Ásta Kristjánsdóttir
Ásta við tökur á myndinni við Bláa lónið, sem birtist hér að ofan.
Tíu ljósmyndir sem Ásta Kristjánsdóttir tók á Íslandi í sumar hafa birst í indverskri útgáfu tímaritsins heimsfræga, Vogue.

„Ég fór á fund með þeim í Mumbai á Indlandi og bar upp þá hugmynd um að mynda á Íslandi. Þeir skoðuðu möppuna mína og lögðu þetta fyrir ritstjórann og stjórnina og svo var það samþykkt,“ segir Ásta,“ spurð út í verkefnið.

Myndatakan stóð yfir í tvo daga og fór m.a. fram við Jökulsárlón og á Suðurnesjum. „Þetta var rosalega mikil vinna. Undirbúningurinn snerist um að finna rétta tökustaði, réttu fyrirsætuna og svo mátti veðrið ekki klikka. Svo finnst mér flott hjá Icelandair að styrkja verkefnið,“ segir hún. „Þetta er ofsalega mikil landkynning fyrir Ísland. Vogue India er lesið í milljónum eintaka og ég reikna með að fólk eigi eftir að reka upp stór augu þegar það sér landslagið og vilji koma hingað.“

Ásta er fyrsti Íslendingurinn sem á ljósmyndir í Vogue India og viðurkennir að það sé mikill heiður. „Maður er búinn að lesa Vogue síðan maður var lítill. Þetta er bara óskaplega gaman,“ segir hún og vonast til að myndirnar opni stærri dyr fyrir hana að ljósmyndamarkaðnum erlendis. „Þetta eru ekki best launuðu verkefnin en þau opna kannski dyr að öðrum verkefnum sem borga meira.“

Ásta hefur á þessu ári haldið sýningu fyrir Amnesty International, auk þess sem hún er að undirbúa aðra fyrir Barnaheill. Hún segir umhverfið vera að breytast fyrir íslenskar konur í ljósmyndun. „Það er ótrúlegt hvað það hafa verið fáar konur í þessu en ég held að það sé að breytast. Við erum að ryðja okkur leiðina inn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×