Lífið

Oddi fargaði þrjú þúsund eintökum

Freyr Bjarnason skrifar
Luis Suarez vildi gera breytingar á sjálfsævisögu sinni á síiðustu stundu.
Luis Suarez vildi gera breytingar á sjálfsævisögu sinni á síiðustu stundu. Vísir/Getty
Farga varð fyrsta upplagi af íslenskri útgáfu sjálfsævisögu knattspyrnuhetjunnar Luis Suarez úr Barselóna, eða þrjú þúsund eintökum.

Þrátt fyrir það kemur bókin út á Íslandi 6. nóvember, eins og áætlað var í upphafi, á sama tíma og í Englandi, Hollandi og heimalandi kappans, Úrúgvæ.

Þýðandi bókarinnar, Arnar Matthíasson, lagði nótt við nýtan dag eftir að hann fékk handritið í hendur nú í sumar og því tókst að senda bókina í prentun á tilsettum tíma.

Í lok síðustu viku, eftir að Prentsmiðjan Oddi hafði prentað og bundið stórt upplag af ævisögunni, fékk Veröld, útgefandi bókarinnar, hins vegar þau skilaboð að Suarez vildi gera ákveðnar breytingar á verkinu.

„Að sjálfsögðu brugðum við skjótt við, hentum fyrsta upplaginu og löguðum handritið eins og Suarez vildi. Í góðu samstarfi við vini okkar í Odda náum við síðan að koma bókinni til íslenskra lesenda þann sjötta nóvember, eins og til stóð,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Veröld.

Í bókinni fjallar Suarez til dæmis ítarlega um hina dramatísku atburði sem gerðust á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í sumar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×