Lífið

Eigandinn gaf Já List! grænt ljós

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Framtíðin er óráðin en hópurinn veit ekki hversu lengi hann hefur aðstöðu í húsinu eða hvað tekur við.
Framtíðin er óráðin en hópurinn veit ekki hversu lengi hann hefur aðstöðu í húsinu eða hvað tekur við. Fréttablaðið/Stefán
Í enda október flutti Reykjavíkur Akademían úr JL-húsinu vegna þess að til stendur að breyta hluta hússins í gistiheimili.

Já List!, hópnum sem hefur komið sér fyrir í húsinu á meðan það stendur autt, barst í gær tölvupóstur frá eiganda hússins. „Hann er búinn að gefa okkur grænt ljós á að vera hérna þar til framkvæmdir hefjast og tók bara vel í þetta,“ segir Guðný Ósk, einn af meðlimum Já List!.

Hópurinn, sem varð til í kjölfar hústökunnar, hefur dvalið á fjórðu og fimmtu hæð hússins síðan á föstudag. Meðlimirnir eiga það sameiginlegt að vilja skapa eitthvað fallegt og byggja upp virka lista- og menningarmiðstöð. Guðný Ósk tekur fram að allir séu velkomnir: „Það eru ekki allir í þessum hópi listamenn, líka fólk sem hefur gaman af list og vill taka þátt í að stuðla að aukinni listsköpun og getur lagt eitthvað af mörkum.“

Hópurinn hefur enn sem komið er engar áætlanir um hvað tekur við þegar hann þarf að yfirgefa húsið. „Eins og er þá erum við að reyna að hugsa viku og viku fram í tímann og hvernig við getum byggt þetta upp. Hvernig við getum fengið fólk inn sem vantar rými en erum ekkert farin að hugsa lengra. Þetta er svo nýtilkomið, við nýbyrjuð að skapa þetta og viljum gera þetta að einhverju skemmtilegu áður en við förum að pæla í framtíðinni.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×