Lífið

Innleiða núvitund í framhaldsskólana

Bryndís stóð fyrir innleiðingu núvitundar í Flensborgarskóla við góðar undirtektir.
Bryndís stóð fyrir innleiðingu núvitundar í Flensborgarskóla við góðar undirtektir.
„Við byrjuðum með núvitundarnámskeið haustið 2012 fyrir kennara skólans. Þetta fékk svo frábærar undirtektir að við héldum fleiri námskeið, og núna á vorönn 2014 héldum við fyrsta námskeiðið fyrir nemendur,“ segir Bryndís Jóna Jónsdóttir, mannauðsstjóri í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

Flensborg hefur á síðustu árum unnið mikið frumkvöðlastarf í heilsuvitund í framhaldsskólum, meðal annars með því að innleiða Núvitund í skólana. „Námskeiðið er fyrst og fremst hugsað sem heilsuverndandi verkefni til langs tíma, og stendur til að setja námskeiðið inn í lífsleiknitíma hjá annars árs nemendum eftir áramót,“ segir Bryndís.

Hún ásamt þremur öðrum fór til Oxford að læra núvitund, til þess að öðlast kennsluréttindi í faginu. „Núvitundin hefur svo fjölbreytt áhrif og ávinningur hennar er á mörgum sviðum. Það er svo mikilvægt fyrir nemendur að fá að kynnast þessu verkfæri sem er síðan þeirra að notfæra sér. Streita og þunglyndi eykst oft á menntaskólaárunum og því er þetta mikilvægur liður í heilsuvernd nemenda.“

Bryndís segir að viðbrögð við námskeiðinu hafi verið jákvæð og segir flesta finna mun á sér. „Það er ekki komin nógu mikil reynsla á þetta hjá okkur til þess að sjá mælanlegan mun, enda höfum við ekki mælt þunglyndi eða kvíða fyrir námskeiðin. Hins vegar sýna erlendar rannsóknir að þetta hefur mikil og góð áhrif á heilsuna. En ég get fullyrt að þetta hefur áhrif, það er eitthvað sem breytist innra með manni.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×