Lífið

Fara alla leið með grínið

Júlíana og Vala taka á mörgum vandamálum og vandræðalegum aðstæðum í þáttunum og snúa upp í grín.
Júlíana og Vala taka á mörgum vandamálum og vandræðalegum aðstæðum í þáttunum og snúa upp í grín. Vísir/Vilhelm
Nú standa yfir tökur á nýjum grínsketsaþáttum, en höfundar og aðalleikkonur þeirra eru þær Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.

„Hugmyndin að þáttunum kom út frá því að okkur langaði að gera leiksýningu, en hugmyndirnar voru svo sketsakenndar að það passaði ekki,“ segir Júlíana, en hún lauk leiklistarnámi fyrr á árinu frá Rose Bruford í Englandi og Vala er á þriðja ári í leiklist í Listaháskóla Íslands.

Í þáttunum, sem sýndir verða á stöð 2 í vor, koma fyrir bæði persónur sem koma oft fyrir í gegnum seríuna, en aðrar bara í stökum sketsum. „Þetta verður alls konar, við tökum á alls konar vandamálum hvort sem það eru stelpuvandamál eða þjóðfélagsvandamál,“ segir Vala.

Þær tvær sjá að mestu um allan leik í þáttunum, en aðrir leikarar munu koma við sögu. Fyrst ætluðu þær að vinna út frá ákveðnu þema, en fljótlega sáu þær að hugmyndirnar voru of fjölbreyttar. „Við erum smá að fara alla leið með sumt grín í þáttunum og húmorinn kannski svolítið svartur, en markmiðið er aldrei að sjokkera,“ segir Júlíana.

Þær segja það hafa hjálpað þeim mikið að vera vinkonur fyrir, en þær kynntust í Versló. „Það er ótrúlega gott að vinna með vinkonu sinni í svona, maður er ekki eins hræddur við að hin drulli yfir hugmyndirnar manns,“ segir Vala, en bætir við: „En svo getur verið ótrúlega erfitt að leika saman, til dæmis að horfast í augu. Mér finnst hún oft svo sjúklega fyndin að ég fer að hlæja, en það væri kannski annað ef þetta væri ekki besta vinkona mín.“

Aðspurðar hvort þeim finnist vanta stelpur í grín, segja þær svo vera, en eru sammála um að nú sé ákveðin vitundarvakning í gangi.

„Stelpurnar eru frumkvöðlar í stelpugríni og Saga Garðars líka, en það vantar fleiri stelpur sem gera grín að stelpum. Það er eins og sumt megi bara vera fyndið ef strákar gera það,“ segir Júlíana og bætir við að stelpur verði að þora að fara alla leið með grínið.

„Við dæmum hvor aðra svo hart að við þorum ekki að fara alla leið, vera fyndnar og vera alveg sama. Við verðum að leyfa okkur að vera asnalegar,“ segir Vala. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×