Lífið

Opnar verslun í Hafnarfirði

Harpa Einarsdóttir fatahönnuður
Harpa Einarsdóttir fatahönnuður Vísir/Valli
„Þetta gerðist allt mjög hratt og ég er eiginlega enn að átta mig á þessu. En nú er gamall draumur hjá mér að rætast,“ segir Harpa Einarsdóttir fatahönnuður sem ásamt þremur öðrum opnar nýja verslun í Hafnarfirði.

„Ég flutti í Hafnarfjörð fyrir stuttu og var að leita mér að húsnæði fyrir vinnustofu. Þá rakst ég á viðtal við Birtu í Júniform og sá að hún var búin að selja reksturinn, svo ég hafði samband við hana og í framhaldi af því var ég komin með lykla að nýju búðinni minni,“ segir hún.

Verslunin mun heita Baugar og bein eftir nýjustu fatalínu Hörpu, Skulls and halos, sem er lýsandi fyrir verk Hörpu en hún vinnur mikið með myrkur og dulúð.

„Þetta verður að mestu leyti íslensk hönnun og list, en ég er einnig í viðræðum við nokkra hönnuði frá Skandinavíu. Við erum, eins og staðan er í dag, tveir fatahönnuðir, ljósmyndari og svo er ein okkar að gera einstakar baðvörur en við munum auglýsa betur þegar nær dregur,“ segir Harpa.

Hún ætlar sér inn í reksturinn af hógværð og vonast til að þetta fái að vaxa af sjálfu sér. „Við stefnum á að hafa heitt á könnunni í desember, það verður notalegt að koma í jólabæinn Hafnarfjörð og við vonumst til að fá sem flesta í heimsókn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×