Lífið

Ætla ekkert að kenna þeim að vera ég

Þorsteinn hvetur allar fyndnar stelpur til að sækja um.
Þorsteinn hvetur allar fyndnar stelpur til að sækja um. Vísir/Gunnar Svanberg
„Það er reglulega hringt í mig og ég beðinn um ráð svo ég ákvað að gera þetta,“ segir grínistinn Þorsteinn Guðmundsson, en hann byrjar með námskeið í uppistandi 17. nóvember.

„Þátttakendur koma til með að semja sitt efni sjálfir en svo vinnur allur hópurinn saman. Við skoðum sögu uppistandsins, aðferðir, myndbönd, fáum fyrirlesara og alls konar. Ég legg mikla áherslu á að fólk sæki í eigin reynslu, ég ætla ekkert að kenna þeim að vera ég,“ segir hann.

Námskeiðinu lýkur svo með skemmtum í Þjóðleikhúskjallaranum þar sem þátttakendur flytja sitt uppistand. Á námskeiðinu verða ekki fleiri en tíu, en sætin fyllast fljótt.

„Ég er svo ánægður með að það eru ekki bara óvanir að sækja um. Uppistand er fyrir alla sem hafa áhuga á því, en þetta er auðvitað áskorun. Þessir vönu þurfa kannski smá aðstoð til að komast yfir ákveðinn þröskuld, því það þarf að hafa úthald í uppistandið,“ segir Þorsteinn og bætir við að hann vilji endilega fá fleiri stelpur í hópinn og hvetur allar fyndnar stelpur að sækja um. „Þetta á ekkert að vera einhver karlaklúbbur.“

Áhugasamir geta sótt um á steini1313@simnet.is og nánari upplýsingar má finna á síðu Þorsteins hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×