Lífið

Opnuðu Torfuna í stað Humarhússins

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Amtmannsstígur 1 hýsir í annað sinn veitingastað sem ber nafnið Torfan.
Amtmannsstígur 1 hýsir í annað sinn veitingastað sem ber nafnið Torfan. VÍSIR/VILHELM
Veitingastaðurinn Torfan hefur verið opnaður á Amtmannsstíg 1 þar sem Humarhúsið var áður.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem húsið hýsir veitingastað sem ber nafnið Torfan, en árið 1981 var opnaður veitingastaður í húsinu með sama nafn. Nafngiftin er því engin tilviljun.

„Það er ástæða fyrir nafninu. Viss virðing fyrir fortíðinni og við erum náttúrulega á Bernhöftstorfu. Þetta vinnur allt saman,“ segir Ívar Þórðarson yfirkokkur.

Húsið við Amtmannsstíg 1 var byggt árið 1838 og er friðað. „Við erum í rauninni ekki að breyta neinu, þetta er allt upprunalegt. Við settum bara nýja málningu sem okkur þótti hæfa húsinu. Við berum virðingu fyrir húsinu og reynum að endurspegla það í þjónustu og mat.“

Hin sögufrægu Torfusamtök börðust fyrir tilvist húsanna á Bernhöftstorfu en svæðið hefur einnig þrisvar sinnum orðið eldi að bráð.

„Það hefur alltaf sloppið fyrir horn og aldrei brunnið til grunna. Húsið er í rauninni í upprunalegri mynd og við ætlum að halda því alveg þannig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×