Lífið

Spilar á Þránófón og reynir á þolrif fólks

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Ingi segir tónlistina verða til út frá eiginleikum hljóðfærisins.
Ingi segir tónlistina verða til út frá eiginleikum hljóðfærisins. VÍSIR/VILHELM
Ingi Garðar Erlendsson er tónsmiður, hljóðfæraleikari, hljóðfæraviðgerðamaður og fremsti Þránófónleikari í heimi.

„Þetta er í rauninni ekki beint hljóðfæri. Frekar hugmynd,“ segir Ingi sem mun spila á Þránófóninn á tónleikum í Mengi í kvöld klukkan níu.

„Ég ætla að spila eitt langt spunaverk, það verður svona hálfgert dúndur. Hugmyndin er að spila í sextíu mínútur. Fólk má alveg kíkja inn og fara svo bara. Það þarf ekkert að vera allan tímann því þetta mun alveg örugglega reyna svolítið á þolrifin,“ segir Ingi.

Þránófóninn smíðaði Ingi ásamt belgíska myndlistarmanninum Pieter de Buck út frá hugmynd Þráins Hjálmarssonar.

„Ég þarf að vera mjög nákvæmur. Ég nýti mér eiginleika hljóðfærisins og tónlistin verður til út frá eiginleikum hljóðfærisins,“ útskýrir Ingi og heldur áfram: „Það er ekki líkamlega erfitt að spila á Þránófóninn en það er mjög erfitt að stjórna honum.“

Ingi segir Þránófóninn hafa komið að góðum notum. „Við höfum notað þetta helling en yfirleitt ekki sem sólóhljóðfæri. Það hafa verið samin verk fyrir Þránófóninn með öðrum hljóðfærum.“

„Tilgangurinn var bara að stækka hljóðforðann,“ segir Ingi aðspurður að því hvers vegna þeir félagar hafi ráðist í smíði á Þránófóninum. „Ég smíða oft hljóðfæri fyrir tónverkin mín. Ég er hljóðfæraviðgerðamaður og einn af fáum sem gera við brasshljóðfæri á landinu. Ég er alltaf að smíða og vesenast, taka í sundur og setja saman.“

„Það er ekki bara nauðsynlegt að halda áfram að búa til nýja tónlist heldur líka nýja hljóðgjafa og ný hljóð. Þó það sé kannski aldrei bókstaflega hægt að búa til eitthvað nýtt, það er þó allavega hægt að reyna.“

Ingi segir erfitt að lýsa hljóðinu sem Þránófónninn gefur frá sér. „Þetta er líkt hljóðinu sem kemur á 17. júní þegar míkrafónninn er of nálægt hátalaranum. Svona endurómunarhljóð. Það er erfitt að útskýra það, maður þarf eiginlega að heyra það bara.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×