Lífið

Fjölskyldujóga á Kex

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Álfrún gerir jógaæfingar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Kolbrúnu Helgu Friðriksdætrum.
Álfrún gerir jógaæfingar ásamt dætrum sínum, þeim Margréti og Kolbrúnu Helgu Friðriksdætrum. Vísir/Vilhelm
Álfrún Helga Örnólfsdóttir, leikkona og jógakennari, stýrir krakkajóga á Kexi á morgun. Er það hluti af dagskrá Heimilislegra sunnudaga sem þar verða haldnir í vetur.

„Þetta er í raun og veru bara fjölskyldujóga þar sem allir fjölskyldumeðlimir geta komið saman og gert æfingar. Foreldrarnir geta líka komið, sest og fengið sér kaffi á meðan börnin gera æfingar,“ segir Álfrún, en hún hefur síðastliðin þrjú ár unnið við að kenna börnum og unglingum jóga.

„Ég hef oft fengið fyrirspurnir hvort það sé ekki hægt að vera með jógatíma þar sem öll fjölskyldan getur tekið þátt, þannig að ég vonast til að sjá sem flesta. Þetta er tilvalið til þess að ná sér niður eftir helgina og ná sér í góða orku fyrir komandi viku. Svo er hægt að nýta sér æfingarnar seinna meir, ef þarf að róa sig niður fyrir svefninn,“ segir hún.

Fyrri tími krakkajóga hefst klukkan 13 og stendur í hálftíma og er næsti kl. 13.30. Heimilislegir sunnudagar verða vikulega á Kexi í vetur þar sem eitthvað verður í boði fyrir fjölskylduna. Ævar töframaður, piparkökubakstur fyrir jólin og kórsöngur er hluti af því sem í boði verður næstu sunnudaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×