Lífið

Giftu sig á afmælinu en muna ekki hvaða ár

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Ég ætla bara að hafa eitthvað smávægilegt í dag með fjölskyldunni en ætli ég haldi svo ekki partí í desember,“ segir Bryndís Halla.
"Ég ætla bara að hafa eitthvað smávægilegt í dag með fjölskyldunni en ætli ég haldi svo ekki partí í desember,“ segir Bryndís Halla. Vísir/Vilhelm
Þegar Bryndís Halla Gylfadóttir er spurð út í eftirminnilegasta afmælið fer hún að hlæja.

„Ætli það sé ekki þegar ég og maðurinn minn ákváðum að gifta okkur? Við vorum búin að vera saman lengi og þetta var á afmælinu mínu en það er svo fyndið að við munum hvorugt hvaða ár það var!“



Eiginmaður Bryndísar Höllu er Þórður Magnússon tónskáld, sonur Megasar.



Þau hjón eiga fimm börn og Bryndís Halla segir flest þeirra hafa verið fædd þegar brúðkaupið fór fram.

„Við foreldrarnir skildum börnin eftir heima meðan við skruppum til dómara og létum hann pússa okkur saman. Mamma hringdi meðan við vorum í ferðinni og spurði hvort ég væri heima, „Nei,“ svaraði lítill sonur okkar „Hún er að gifta sig!“

Við vorum á kafi í framkvæmdum á þessum tíma og maðurinn minn sem hefur mjög gaman af gömlum húsum fann eitthvert húsablað á biðstofunni hjá dómaranum. Þegar við vorum kölluð til athafnarinnar gat hann ekki slitið sig frá lestrinum svo dómarinn sagði: „Þú mátt bara eiga þetta blað. Komdu nú!“

Nú er afmælisbarnið innt eftir upprunanum að íslenskum sið.

„Ég hef verið svo mikið úti um allt að ég veit ekki hvaðan ég er,“ svarar það í hálfkæringi. „Ég er dóttir Gylfa Baldurssonar, heyrnar-og talmeinafræðings, og Þuríðar Rúríar Jónsdóttur taugasálfræðings og er auðvitað alíslensk en ég fæddist í Ameríku og svo bjuggum við lengi í Kanada.“

Annatími er hjá Bryndísi Höllu um þessar mundir eins og svo mörgu tónlistarfólki. Því verður hálfrar aldar afmælið hófstillt að hennar sögn.

„Ég ætla bara að hafa eitthvað smávægilegt í dag með fjölskyldunni en ætli ég haldi svo ekki partí í desember. Síðustu ár hef ég passað að taka ekki of mörg verkefni að mér á aðventunni svo lífið róast hjá mér þegar nær líður jólum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×