Lífið

Segist staðráðin í að verða leikkona

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Svava Sól Matthíasdóttir
Svava Sól Matthíasdóttir Fréttablaðið/Vilhelm
Svava Sól Matthíasdóttir, nemandi í 9. bekk Seljaskóla, vakti athygli þegar hún söng Russian Roulette með Rihönnu í siguratriði Skrekks, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkur, á mánudagskvöld.



„Atriðið var um tækni og hvernig hún er að taka yfir allt hjá okkur,“ segir Svava. Nemendur skólans sömdu atriðið og hún ásamt níu öðrum var í hugmyndateyminu.

„Þetta var rosa mikil vinna. Við vorum í tvo mánuði að undirbúa og æfa eftir skóla, alls þrjátíu og fimm krakkar svo það var mikið skipulag,“ segir hún.



Sigurinn segir hún hafa komið þeim á óvart. „Við vorum alveg viss um að annar skóli myndi vinna. Þegar búið var að nefna tvö efstu sætin og sá skóli var ekki þar, vorum við alveg búin að missa vonina.“



Svava er þessa dagana á fullu að æfa í Leitinni að jólunum í Þjóðleikhúsinu. Hún er því vön að standa á sviði, en áður hefur hún tekið þátt í Galdrakarlinum í Oz, Dýrunum í Hálsaskógi og Eldrauninni.



Aðspurð hvort þetta taki ekki mikinn tíma frá skólanum segir hún svo vera. „En það er alveg þess virði,“ segir þessi hæfileikaríka stelpa sem er staðráðin í að verða leikkona þegar hún verður eldri. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af siguratriði Seljaskóla í Skrekk 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×