Lífið

Konur eiga að tala um húð, hár og neglur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Fida framleiðir fæðubótarefni úr kísil.
Fida framleiðir fæðubótarefni úr kísil. VÍSIR/VILHELM
Fida Abu Libdeh er frumkvöðull, framkvæmdastýra og meðstofnandi fyrirtækisins Geosilica, sem framleiðir kísilfæðubótarefni úr affallsvatni frá jarðvarmavirkjunum landsins.

Fida er fædd og uppalin í Palestínu en flutti til Íslands árið 1995, um það bil sem hún átti að byrja í menntaskóla. „Íslenska var auðvitað ekki móðurmálið mitt. Ég reyndi að fá undanþágu og hafði mikinn áhuga á að klára menntun mína en það gekk erfiðlega,“ segir Fida.

Árið 2008 lauk hún námi við viðskipta- og hagfræðideild háskólabrúar Keilis. Vorið 2012 útskrifaðist hún svo með B.sc.-gráðu í umhverfis- og orkutæknifræði frá Háskóla Íslands.

„Þetta byrjaði út frá lokaverkefninu mínu og við stofnuðum Geosilica í kjölfarið. Verkefnið okkar snýst fyrst og fremst um nýtingu á auðlindum,“ útskýrir Fida.

„Við erum að leysa vandamál sem er búið að vera til staðar í mörg ár. En við finnum fyrir því að gert er ráð fyrir því konur eigi frekar að vera í framleiðslu á fegrunarvörum, við eigum að vera að tala um húð, hár og neglur en ekki græna orku og nýtingu á auðlindum.“

Hjá Geosilica starfa fimm starfsmenn, þrjár konur og tveir karlmenn. „Það er oftast fyrst haft sambandi við strákana þó svo að við séum með sömu menntun,“ segir Fida. „Það eru fáar konur sem hafa farið í þetta. Það er því erfitt að finna fyrirmyndir og það er barátta á hverjum degi að sanna það að við erum klárar líka.“

Hún segir Geosilica stefna á að koma kísilfæðubótarefninu á markað í desember. „Sé kísill tekinn inn reglulega með fæðu getur hann komið í veg fyrir beinþynningu. Fólk er að taka kalk og mjólkurvörur eru d-vítamínbættar en ef kísill er ekki tekinn með á líkaminn erfitt með að koma steinefnunum fyrir í beinunum.“

Kísill er þekktur fyrir að hafa góð áhrif á húð, hár og neglur en áhrif hans takmarkast ekki þar. „Hann styrkir líka bandvef, brjósk, sinar og liðbönd. Þar sem hann styrkir bandvefinn getur hann dregið úr tíðni íþróttameiðsla.“

Fida segir frá Geosilica og deilir reynslu sinni af því að fá hugmynd og koma henni í framkvæmd á alþjóðlegum degi frumkvöðlakvenna í Hannesarholti klukkan hálf fjögur í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×