Lífið

Opna hugsunkvenna.is

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurlaug kennir heimspeki í Námsflokkum Reykjavíkur og brennur fyrir verkefninu hugsunkvenna.is
Sigurlaug kennir heimspeki í Námsflokkum Reykjavíkur og brennur fyrir verkefninu hugsunkvenna.is Vísir/GVA
„Við viljum gera upplýsingar um markverðar konur aðgengilegar þannig að hægt verði að nýta þær til kennslu. Þess vegna erum við að setja upp heimasíðuna hugsunkvenna.is og ætlum að opna hana formlega í dag um leið og minning Bríetar Bjarnhéðinsdóttur kvenréttindakonu verður heiðruð með hátíðarupplestri í Iðnó. Það er upptaktur að hátíðarári 100 ára afmælis kosningaréttar íslenskra kvenna 2015,“ segir Sigurlaug Hreinsdóttir heimspekikennari.

Þessar „við“ sem Sigurlaug talar um eru hún og Erla Karlsdóttir, doktorsnemi í heimspeki, sem gerði athyglisverða könnun fyrir Námsgagnastofnun er sýnir glögglega fram á skort á upplýsingum um konur í námsefni íslenskra nemenda. Sem dæmi tók Erla námsbók um 20. aldar sögu sem skrifuð var eftir síðustu aldamót þar sem nafngreindur er sjötíu og einn karl en einungis tólf konur.



„Við erum að hugsa um konur sem hafa breytt einhverju með hugmyndum sínum, kenningum, orðum eða gjörðum, haft áhrif í raun og veru,“ tekur Sigurlaug fram. Hún segir heimasíðuna enn í vinnslu og því geti þeir sem áhuga hafa tekið þátt í að byggja hana upp.

„Þetta er hugsað sem samfélagsverkefni. Hver sem er getur sent okkur efni og hugmyndir að efni. Við Erla ritstýrum því svo og reynum að samræma efnistök.“

Þegar eru komnar upplýsingar á síðuna um nokkrar konur, meðal þeirra er Bríet Bjarnhéðinsdóttir. „Á síðunni er aðeins skrifað um lífshlaup konunnar og einhverja hugmynd sem hún hefur sett fram eða verkefni sem hún hefur unnið að. Bæði íslenskar og erlendar konur verða á síðunni og frá öllum tímabilum sögunnar,“ segir Sigurlaug.

Sjálf kveðst Sigurlaug núna vera að skrifa fróðleik á síðuna um daufblindu konuna Helen Keller, sem þurfti að hafa fyrir því að láta rödd sína heyrast.

„Helen Keller er ekki getið í þeim kennslubókum sem ég hef séð en samt getur verið að einhverjir kennarar séu að miðla nemendum sínum fróðleik um hana,“ segir Sigurlaug og tekur fram að efnið á síðunni sé ætlað til kennslu bæði í grunn- og framhaldsskólum. Hægt verður að hlusta á textana á síðunni þannig að hún geti nýst bæði lesblindum og blindum.

„Við erum að búa til fésbókarsíðu líka,“ segir Sigurlaug.

„Það er dýrmætt fyrir verkefnið ef kennarar eru tilbúnir að reyna efnið í kennslu og senda umsögn um hvernig gekk og hvað mætti betur fara. Eitt af því sem er svo skemmtilegt við heimasíður er hvað þær eru sveigjanlegar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×