Lífið

Áramótaheitin 2015

Ný plata er heitið

"Áramótaheitið er að gefa út nýja plötu á árinu. Ég er heldur betur byrjaður á því – það eru átta lög komin og öll óútgefin." 

Emmsjé Gauti, rappari.

Mynd/Julia Staples
Sanngjarnari við ríkisstjórnina

"Ég ætla að vera sanngjarnari við ríkisstjórn Íslands. Svo ætla ég að senda Fréttablaðinu nýja mynd af mér."

Haukur S. Magnússon, ritstjóri Reykjavik Grapevine.

Róum í sömu átt

"Ég biðst afsökunar á öllum þeim vanda sem ég hef valdið frá fæðingu minni og hyggst bæta úr því á næsta ári eða í næsta lífi. Um leið sendi ég öllum landsmönnum hugheilar nýárskveðjur. Reynum að róa í sömu áttina."

Jón Ársæll Þórðarson, dagskrárgerðarmaður.

Láta draumana rætast



"Halda áfram að láta draumana rætast, það er mitt áramótaheit. Hef unnið ötullega að því og tók það föstum tökum á afmælisári með því að halda upp á risastórt afmæli. Alltaf draumur hjá mér að fara á Billy Joel-tónleika í Madison Square Garden í New York. Tjékk! Tengist mikið ferðalögum og gleði."

Helga Braga Jónsdóttir, leikkona.





Vísir/GVA
Láta gott af sér leiða 

"Ég ætla að gera næsta ár betra en árið í ár. Ég ætla að halda áfram að gera góða hluti, Láta gott af mér leiða og hjálpa þeim sem þurfa hjálp. Svo ætla ég að bæta mig aðeins í ræktinni og taka meira á því hjá honum Garðari stjörnutálgara."

Herbert Guðmundsson, tónlistarmaður.

Standa sig í móðurhlutverkinu



"Þar sem ég á nú von á lítilli prinsessu núna í byrjun mars þá hugsa ég að áramótaheitið mitt verði að eyða sem mestum tíma með fjöldskyldunni og standa mig vel í móðurhlutverkinu."

Sara Lind Pálsdóttir, eigandi Júník.





Mynd/Bernhard Kristinn Ingimundars
Passar sig á sykurpúkanum



"Mér tókst að taka heilsuna og kroppinn vel í gegn á liðnu ári svo áramótamarkmiðið er að massa mig aðeins upp og láta ekki sykurpúkann ná tökum á mér. Aðal áramótaheitið er hins vegar að fókusera á móðurhlutverkið og passa vel upp á ungana mína."

Erna Hrönn Ólafsdóttir, tónlistarkona.

Vísir/Ernir
Vera betri manneskja

"Áramótaheitið mitt er mjög óljóst en ég missti það út úr mér við einhvern í fyrradag. Það er bara að vera betri manneskja og örlátari á tíma minn."

Guðrún Eva Mínervudóttir, rithöfundur.

Mynd/Andri Marinó
Hitta vinina oftar

"Ég er með mjög einfalt áramótaheit, ég ætla að vera duglegri að hitta vini mína og bjóða þeim í heimsókn."

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, tónlistar- og listakona.

Góð ráð frá markþjálfa

Oft reynist erfiðara að standa við áramótaheitin en að setja sér þau.

María Lovísa Árnadóttir markþjálfi setti saman góðar ráðleggingar um hvernig best er að setja sér markmið og standa við þau.

Hún segir mikilvægt að setja sér raunhæf, framkvæmanleg markmið og brjóta þau niður í skref. „Óraunhæf eða yfirgnæfandi háleit markmið geta virkað spennandi í fyrstu en gera manni síðan erfitt fyrir og valda því jafnvel að fólk byrjar aldrei.“

Einnig segir hún ekki síður skipta máli að átta sig á því af hverju ákveðið markmið er sett. „Mikilvægt er að vita hvað við viljum en mikilvægara er þó að svara því hvernig við ætlum að gera það og kannski umfram allt af hverju við viljum það. Tengdu þig persónulega við heitin þín með því að til dæmis svara: Hvað þýðir það fyrir mig að vera í formi og af hverju vil ég það?“

Mikilvægt er að missa ekki dampinn við mistök eða hliðarspor.

„Fagnaðu öllum áföngum og mundu að eftir því sem tíminn líður þá verða allar breytingar auðveldari og verða að lokum að nýjum vana og þú verður kominn þangað sem þú ætlaðir þér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×