Lífið

Endurvekur leikhússportið á Rifi

Gunnar Smári Jóhannesson heldur Íslandsmeistaramótið í spuna í fyrsta skipti í lok mánaðarins.
Gunnar Smári Jóhannesson heldur Íslandsmeistaramótið í spuna í fyrsta skipti í lok mánaðarins. fréttablaðið/Stefán
„Svona keppni var haldin í Iðnó hér áður fyrr, síðast árið 1998, en við ákváðum að endurvekja þetta og færa út á land,“ segir Gunnar Smári Jóhannesson en Gunnar stendur fyrir Íslandsmeistaramótinu í spuna sem fram fer í Frystiklefanum á Rifi 29. og 30. ágúst.

„Á íslensku heitir þetta leikhússport en það gengur út á það að tvö lið mætast og keppa um besta spunann. Liðin spinna 3-4 mínútna leikþátt út frá aðstæðum eða áskorun sem áhorfendur gefa liðinu. Þrír dómarar sjá svo um að dæma öðru liðinu sigur.“

Keppendur og áhugamenn um leikhússportið gista á Rifi en forkeppnin fer fram á föstudeginum og úrslitakeppnin á laugardeginum. Skráningargjaldið er 4.000 krónur.

„Ég kalla þetta í raun og veru gistigjald þar sem þú ert í rauninni bara að greiða fyrir gistinguna. Svo verða haldin heljarinnar partí bæði á föstudeginum og laugardeginum fyrir þá sem þarna verða svo þetta verður rosalegt stuð.“

Gunnar vonast til þess að hátíðin sé komin til að vera.

„Planið er að hátíðin stækki með árunum. Á næsta ári ætlum við til dæmis líka að leita að hagyrðingum, röppurum og myndlistarfólki, og í raun bara öllum listformum, til þess að búa til spunasýningu.“

Nánar má lesa um keppnina og finna upplýsingar um skráningu hér






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.