Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Valur 23-17 | Eyjakonur jöfnuðu einvígið

Guðmundur Tómas Sigfússon í Eyjum skrifar
Vísir/Valli
Eyjakonur jöfnuðu metin í einvíginu gegn Valskonum í dag í undanúrslitum Olís-deildar kvenna en þær unnu, 23-17, í hreint út sagt ótrúlegum leik.

Leikurinn hófst eins og fyrri leikur liðanna þar sem mikið jafnræði var á með liðunum og nánast jafnt á öllum tölum en mikil stemning var á pöllunum í fyrri hálfleik.

Vera Lopes besti leikmaður Eyjakvenna á tímabilinu átti góðan leik og skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Þegar venjulegur leiktími fyrri hálfleiks var úti og aðeins aukakast eftir skaut Vera Lopes boltanum í andlit Karólínu Bæhrenz Lárudóttur og var því vísað af velli með rautt spjald.

Margir héldu að nú myndu Valskonur ganga á lagið og valta yfir Eyjastúlkur sem voru þá að spila án síns besta leikmanns en allt kom fyrir ekki.

Eyjakonur byrjuðu seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og nýttu ungar stelpur tækifærið. Samspil heimakvenna virtist batna til mikilla muna í seinni hálfleik en þær nýttu sér „sjöunda sóknarmannin“ en það var Þórsteina Sigurbjörnsdóttir sem gegndi því hlutverki.

Stuðningsmannasveit Eyjamanna, Hvítu Riddararnir, létu vel í sér heyra og gáfu heimakonum þann styrk sem þær þurftu á að halda til þess að jafna einvígið.

Eyjakonur styrktust einungis þegar leið á leikinn og lönduðu sex marka sigri með ótrúlegum seinni hálfleik en lokatölur urðu 23-17, eins og áður segir.

Jón Gunnlaugur og Svavar Vignisson.Vísir/Daníel
Jón Gunnlaugur: Áttundi og níundi maðurinn inni á vellinum

„Þetta var algjörlega frábær leikur, Svavar stillti vörninni frábærlega upp, stelpurnar stigu upp þegar þær þurftu. Þetta var ótrúlega, ótrúlega flott,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Eyjakvenna, eftir glæsilegan sigur á Valskonum í dag.

„Við unnum þær heima í deildinni, ég vissi að við myndum vinna þennan leik. Nú þurfum við að sýna að við getum klárað þær á útivelli.“

„Við erum búnir að nota níu unglingaflokksstelpur í vetur og það er að skila sér í svona leik þegar á þarf að halda,“ sagði Jón Gunnlaugur sem var gríðarlega sáttur með sínar stelpur í dag sem spiluðu ótrúlegan handbolta í seinni hálfleik.

„Þetta var ótrúlegur stuðningur, mig langar að þakka öllu Eyjafólki fyrir að hafa mætt á þennan leik, þetta er áttundi og níundi maðurinn inni á vellinum fyrir okkur. Þetta er ómetanlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×