Bílar

Bílar sem misstu marks

Finnur Thorlacius skrifar
Nissan Murano CrossCabriolet.
Nissan Murano CrossCabriolet.
Bílaframleiðendum tekst vissulega misjafnlega til við framleiðslu sína. Góð lexía er að kanna markaðinn áður og finna hvar þörfin er fyrr en farið í framleiðslu. Því virðast framleiðendur þessara bíla hafa snargleymt, eða spurt rangra spurninga, því engin eftirspurn var eftir þeim og þeir seldust allir í afar fáum eintökum.

Sumir þeirra eru þó ári skemmtilegir bílar, en að því er ekki spurt þegar fjármáladeildin byrjar að telja uppúr kassanum. Framleiðsla bíla þarf jú að borga sig.

Bíllinn hér að ofan, Nissan Murano CrossCabriolet, er jeppi með blæju, þarf að segja eitthvað meira? Jú, hann er í afar sérkennilegum hlutföllum, höfuðrými afturí hlýtur að vera mjög takmarkað og skottrýmið nánast ekkert. Er það eitthvað sem kaupendur jeppa eru að sækjast eftir. Nei, kaupendum fannst það einmitt ekki.

Pymouth Prowler.
Plymouth Prowler er einn þeirra bíla sem markaði endalok Plymouth merkisins. Þessi bíll er afturhvarf til fortíðar, svokallaður "Retro" bíll en kaupendur virtust einfaldlega ekki vilja hverfa til fortíðar við kaup á nýjum bíl.

GMC Typhoone/Siclone
GMC Typhoone er lítill pallbíll með ofuröfluga vél, a.m.k. á þeim tíma sem hann var smíðaður. Hann var í framleiðslu árin 1992 og 1993 og seldist í 4.697 eintök og eru þá einnig talin með GMC Siclone afbrigði hans. Sá sem þarf pallbíl er ekki endilega að fara á honum í kvartmíluna, því þessi bíll komst á 100 km hraða á 5,3 sekúndum og fór kvartmíluna á 14,1 sekúndu. Því fór sem fór með sölu hans.

Mercedes Benz R63 AMG.
Strumpastrætó með 510 hestafla vél, hver kaupir svoleiðis? Þessi bíll fellur í flokk MPV bíla (Multi Purpuse Vehicle) og kaupendur þeirra eiga flestir mörg börn sem þarf að skjótast með í skólann og á fótboltaæfingar. Þá þarf maður ekki 510 hestöfl. Það fannst Mercedes Benz, en kaupendum alls ekki og örfá eintök seldust.

Renault Clio V6 Renault Sport
Renault Clio V6 Renault Sport er tveggja sæta bíll, enda tekur vélin plássið þar sem aftursætisfarþegar væru annars. Hann var með 255 hestafla öskrandi vél. En hver vildi Clio svona útbúinn? Afar fáir.

Volkswagen Pheaton.
Volkswagen Pheaton er flaggskip Volkswagen, en svo stór, vandaðaður og dýr lúxusbíll finnst kaupendum ekki eiga að bera Volkswagen merkið. Kaupendur velja frekar Audi, BMW eða Mercedes. Samt er þessi bíll áfram í framleiðslu og hið risastóra Volkswagen merki hefur greinilega efni á að framleiða bíl þar sem vænt tap er á hverju seldu eintaki. 

Subaru SVX.
Subaru SVX var alltof dýr og tæknilega fullkominn bíll fyrir ímynd Subaru. Hann var engu að síður magnaður bíll og á undan sinni samtíð. Hann féll samt afar illa að ímynd Subaru og seldist mjög lítið. Enn eitt dæmið um að framleiðendur verða að skilja hver ímynd þeirra er og hvers kaupendur vænta frá þeim, sama hversu vel þeim tekst upp. 

Dodge Viper.
Dodge Viper er með 10 strokka kraftabúnt með engum hurðarhúnum, engri miðstöð og pústkerfi á hliðunum sem brenndu farþega á fótunum. Ólukkuframleiðsla sem enginn bað um og fáir vildu. Stundum er fullt af hestöflum bara ekki nóg.

Lexus LFA.
Lexus LFA er bara einn misskilningur frá Lexus. Ótrúlega dýr bíll í þróun og kaupverð hans eftir því. Samt var hann ekkert betri en Nissan GT-R, sem kostar mörgum sinnum minna. 






×