Lífið

Hleypti lífi í Óskars-myndina Gravity

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Daða var sérstaklega þakkað á Óskarnum fyrir vinnu sína í kvikmyndinni Gravity. Hann horfði hins vegar á hátíðina veikur heima.
Daða var sérstaklega þakkað á Óskarnum fyrir vinnu sína í kvikmyndinni Gravity. Hann horfði hins vegar á hátíðina veikur heima. mynd/einkasafn
„Ég horfði á Óskarinn og ég verð að viðurkenna að ég átti frekar von á því að Gravity myndi vinna verðlaun fyrir tæknibrellur, leikstjórn og töku. Það getur auðvitað allt gerst og stundum eru óvænt úrslit en allur aðdragandi og allt tal í kring um myndina benti til þess að þetta færi svona. Ofboðslega gaman að sú varð raunin,“ segir Daði Einarsson, listrænn stjórnandi hjá Reykjavik Visual Effects eða RVX.

Hann stýrði hópi sem animeraði, eða kvikaði, myndina Gravity frá upphafi til enda. Myndin var sigursæl á nýafstaðinni Óskarsverðlaunahátíð og hlaut alls sjö verðlaun, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn, kvikmyndatöku, tæknibrellur og tónlist.

„Það var haft samband við mig að utan og ég beðinn um að stýra fyrsta hluta vinnslunnar. Ég vann þá náið með leikstjóra myndarinnar, Alfonso Cuarón, við að vinna úr handritinu og stýrði hópi sem animeraði myndina frá upphafi til enda,“ útskýrir Daði.

Gravity var nánast öll gerð í tölvugrafík til þess að ná þyngdarleysinu í myndinni og svo voru andlit leikaranna skeytt inn í grafíkina.

„Það sem við animeruðum var notað til að stýra ljósum og tökuvélinni þegar leikararnir voru í tökum. Seinna meir komu fleiri Íslendingar að, bæði í London hjá Framestore og einnig hjá okkur á Framestore Reykjavík.“

Hefur þú ekki fengið talsverða athygli eftir sigurinn á Óskarsverðlaununum?

„Það hafa margir haft samband í dag og það er gaman að því.“ Hann segist einnig vera í góðu sambandi við Gravity-hópinn.

Hér sjáum við samstarfsmenn Daða taka við Óskarsverðlaunum fyrir tæknibrellur.vísir/getty
Daði og Baltasar Kormákur keyptu Framestore út árið 2012 og endurnefndu fyrirtækið RVX. Síðan þá hefur fyrirtækið séð um brellur í myndum á borð við 2 Guns, Málmhaus og í ýmsum auglýsingum.

„Við erum í tökum á Everest um þessar mundir og munum sjá um brellurnar fyrir þá mynd en það verður ansi stórt verkefni. Við erum búnir að vera í tökum í Nepal og á Ítalíu og færum okkur síðan á stóra sviðið í Pinewood í London um næstu helgi,“ segir Daði um verkefnin í dag.

Daði segir spennandi tíma framundan hjá fyrirtækinu. „Ástæða þess að ég ákvað að koma heim að utan var einmitt sú að byggja upp heimsklassaaðstöðu fyrir myndbrellur og sá fyrir mér það sem er að verða til núna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.