Lífið

Hefðu nánast getað fyllt bókina með íslenskum bjór

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson og leikarinn Höskuldur Sæmundsson skrifuðu bókina Umhverfis jörðina á 120 tegundum.
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson og leikarinn Höskuldur Sæmundsson skrifuðu bókina Umhverfis jörðina á 120 tegundum. Vísir/Valli
Bjóráhugamennirnir Stefán Pálsson og Höskuldur Sæmundsson ákváðu fyrir ári að skrifa fyrstu frumsömdu íslensku bjórbókina. Hófst þá mikið ferðalag þeirra félaga um heim eins vinsælasta drykkjar veraldar en á endanum rötuðu 120 bjórar í bókina. Á meðal þeirra eru þekktir erlendir lagerbjórar eins og Tuborg Grøn og Budweiser en einnig fágæt belgísk munkaöl og íslenskir ­bjórar bruggaðir úr taðreyktu korni eða með hvalamjöli.

„Það fór talsverð vinna í að velja þessa bjóra. Í fyrsta lagi horfðum við á markaðinn hér heima og reyndum að passa upp á að allir veigamestu innlendu bjórarnir væru þarna. Svo völdum við nokkrar af þessum heimsfrægu tegundum en einnig bjóra sem eru sjaldgæfir og erfitt er að nálgast,“ svarar Stefán Pálsson þegar blaðamaður spyr hvernig þeir hafi valið bjórana 120.

„Við reyndum hins vegar að forðast að búa til bók sem yrði eins og margar matreiðslubækur sem eru fullar af kryddtegundum og öðrum hráefnum sem maður hefur engan möguleika á að nálgast,“ segir Stefán.

Bjór er ekki bara bjór

Í mars síðastliðnum voru liðin 25 ár síðan sala á bjór var heimiluð í verslunum ÁTVR og á veitingastöðum. Íslensk bjórmenning hefur breyst mikið á þeim aldarfjórðungi og þá sérstaklega á síðustu sjö til átta árum. Þeim breytingum eru gerð ágæt skil í bókinni en í henni er farið yfir helstu einkenni 24 íslenskra bjóra og sög­urnar á bak við þá. 

„Sem betur fer erum við farin að fikra okkur inn á aðeins flóknari svið í bjórgerðinni og því hefðum við getað farið langleiðina með að fylla bókina af íslenskum bjórum,“ segir Stefán. Hann segir betri bjórmenningu og fjölgun brugghúsa hér á landi hafa leitt til þessarar þróunar þar sem bjórlíki og einfaldir lagerbjórar fengu samkeppni frá vörum sem eru eftirsóttar erlendis. 

„Fyrst eftir bjórbannið þá vorum við nánast eingöngu að framleiða keimlíka lagerbjóra og héldum að það væri nóg að senda menn á einhver bruggnámskeið til Danmerkur í nokkrar vikur. Þetta hefur breyst og nú eru ­íslenskir bruggarar jafnvel farnir að byggja ofan á háskólagráður í lífefnafræði og margra ára nám og starfsreynslu hjá erlendum brugghúsum. Þetta hefur skilað sér inn í íslensku bjórana.“

Stefán nefnir mikla aukningu í sölu á jólabjór sem dæmi um breytta bjórmenningu landans.

„Ótrúlegasta fólk sem jafnvel drekkur ekki bjór alla jafna hrífst með og mætir í biðröðina í Ríkinu á fyrsta degi og sankar að sér öllum tegundum. Þetta er bara menning sem var ekki til fyrir nokkrum árum,“ segir Stefán.

Hann tekur fram að þessi þróun sé í takt við það sem hefur verið að gerast í öðrum löndum. Svokölluðum örbrugghúsum hafi fjölgað víða og bjórtegundum eftir því. Stefán hefur þó ekki áhyggjur af því að hér hafi myndast offramboð á innlendu öli og þá einhvers konar „bjórbóla“. 

„Maður hélt það í upphafi en það er reyndar áhugavert að þegar efnahagskreppan skall á Dönum þá var það fyrsta sem þeir gerðu að skera í burtu einkaneyslu eins og dýran bjór. Dönsku örbrugghúsin sem höfðu þá skotið upp koll­inum fyrir um áratug hrundu þá eins og flugur. Þetta gerðist ekki hér á landi sem er nokkuð merkilegt og kannski vegna þess að Íslendingar eru svo lélegir í peningamálum,“ segir Stefán og hlær. 

Margt sem kom á óvart 

Stefán og Höskuldur hafa báðir kennt við Bjórskóla Ölgerð­arinnar og eru nokkuð vel að sér í sögu bjórsins og hinum ýmsu tegundum. Þrátt fyrir það kom þeim nokkuð á óvart hversu lítið hefur verið skrifað um sögu þessara 120 bjóra en á meðal þeirra er eins og áður segir nokkrir af þekktustu bjórum heims. Þær sögur sem eru tiltölulega aðgengilegar eiga að sögn Stefáns flestar það sameiginlegt að gera fullmikið úr tengingum varanna við aldagamlar aðferðir og uppskriftir. 

„Helst láta menn eins og bjórunum hafi ekkert verið breytt í 200 ár og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu stenst neina nánari skoðun, enda ef maður hugsar um það þá er bjóriðnaðurinn nútímalegur matvælaiðnaður sem hefur alltaf verið framsækinn og ráðið inn færustu vísindamenn og keypt bestu græjurnar. Í staðinn fyrir að bera höfuðið hátt er alltaf vísað í aldagamlar hefðir. En ef við ferðuðumst með tímavél og fengjum að smakka þessa bjóra þá þætti okkur þeir nokkuð furðulegir í dag,“ segir Stefán og heldur áfram: 

„Svo kom einnig á óvart þegar við fórum að kynna okkur frumlega bjóra sem koma frá minnstu og óvæntustu stöðum, að menn eru til dæmis að gera fína bjóra í Grænlandi, við mjög erfiðar aðstæður, þar sem þeir ná sér í vatn með því að bræða jökulís.“

Að sögn Stefáns eru áform um að gefa bókina út á ensku. ­Nokkrir kaflar hennar hafa þegar verið þýddir en bókin var kynnt á bókasýningu sem haldin var í Þýskalandi fyrr í haust. Stefán segir teikningar Ránar Flygenring, sem prýða bókina, hafa vakið sérstaklega mikla athygli. 

„Það er möguleiki að bókin verði færð á ensku og hugsanlega fleiri tungumál. En þá þyrfti að staðfæra margt úr henni. Útlendingar myndu bara hvá við að lesa um bjórlíki og ekkert skilja af hverju 1. mars er lykildagsetning í þessari sögu okkar.“

Mikil gerjun á landsbyggðinni 

Finna má vörur frá öllum íslensku brugghúsunum í Umhverfis jörðina á 120 tegundum. Brugghúsin eru sjö talsins en einungis tvö þeirra, Vífilfell og Ölgerðin, hafa framleitt bjór í meira en áratug. Bruggsmiðjan Kaldi var stofnuð í desember 2005 og í kjölfarið hófu Ölvisholt Brugghús, Gæðingur Öl og Brugghús Steðja framleiðslu. Vífilfell framleiðir að auki bjóra undir nafninu Einstök fyrir bandaríska eigendur vörumerkisins.

„Það urðu mikil kaflaskil með tilkomu Kalda sem hefur komið sér í þá stöðu að eiga mest selda flöskubjórinn í Ríkinu. Það opnaði augu annarra fyrir því að það væri hægt að opna hér örbrugghús og á sama tíma fóru eldri brugghúsin að standa sig betur. Þessi þróun er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri og það var einungis tímaspursmál hvenær þetta næði til Íslands,“ segir Stefán.

„Það sem er sérstaklega athyglisvert í þessu öllu saman er að þessi litlu brugghús hafa flest verið stofnuð úti á landi. Menn hafa ekkert náð sér á flug hérna á höfuðborgarsvæðinu sem hefði kannski verið eðlilegra þar sem hér eru fleiri barir sem selja sérstaka bjóra og fleiri bjórnördar. En það virðist vera rosalega mikilvægt fyrir þessi fyrirtæki að vera með þennan átthaga-stimpil.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×