Viðskipti innlent

Fjallaði um viðskiptatækifæri á norðurslóðum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hélt í morgun opnunarerindi á morgunverðarfundi um viðskiptatækifæri á norðurslóðum á hótel Reykjavík Natura. Þar fjallaði ráðherra um þróunina á norðurslóðum og þau efnahagslegu tækifæri sem Ísland stendur frammi fyrir samhliða auknum möguleikum til auðlindanýtingar og opnun siglingaleiða. Forsætisráðuneytið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Þar segir að Sigmundur hafi meðal annars nefnt olíuleit á Drekasvæðinu og uppbyggingu þjónustu á Íslandi, ekki síst gagnvart hafnsækinni starfsemi.

„Ráðherra ræddi einnig mikilvægi sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum og sérstöðu Íslands er lýtur að endurnýjanlegum orkugjöfum. Forsætisráðherra fjallaði jafnframt um þær áskoranir sem fylgdu auknum efnahagslegum umsvifum á norðurslóðum, ekki síst að því er varðar umhverfis- og öryggismál. Þá áréttaði ráðherra mikilvægi heildstæðrar stefnu í málefnum norðurslóða og greindi frá starfi nýskipaðrar Ráðherranefndar um málefni norðurslóða í því sambandi,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. 

Norðurslóðaviðskiptaráðið og PwC stóðu að fundinum og meðal annarra ræðumanna var dr. Michael Byers, prófessor í alþjóðalögum og stjórnmálum og sérfræðingur í málefnum norðurslóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×