Apar í fyrirmyndarríki Framsóknarflokksins Sif Sigmarsdóttir skrifar 26. september 2014 07:00 Ég ætlaði að láta mér nægja að lesa káputextann. Gengu leshringir hvort eð er ekki aðeins út á að drekka hvítvín? En svo frétti ég að ein af konunum í leshringnum mæður-sem-berjast-gegn-heilahrörnun-sökum-of-mikillar-snertingar-við-heimalagað-barnamauk-og-þroskaleikföng sem er starfræktur hér í London hefði verið blaðamaður á Guardian f.b. (fyrir barneignir). Önnur hafði starfað í áhættustýringu hjá JP Morgan. Minnimáttarkenndin helltist yfir mig eins og sturtan sem ég þurfti svo sjúklega á að halda eftir tveggja daga ælupest hjá barninu. Ég mætti ekki gera mig að fífli. Ég yrði að hafa eitthvað annað til málanna að leggja en „skál“. Sapiens: A Brief History of Humankind. Þetta var ein af þessum bókum sem menningarlegu máttarstólparnir töldu manni trú um að væri nýjasta andlega hrukkukremið. Svona eins og Q10 fyrir greindarvísitöluna. Ég gerði mér litlar vonir um kraftaverk. Eftir heilt ár af kúkableium og Teletubbies var heilanum í mér jafn óviðbjargandi og andlitinu á Mick Jagger. En viti menn. Það kann að hafa haft eitthvað að gera með flöskuna af möndludropum sem ég missti ofan í hrákökuna sem ég æfði mig að útbúa fyrir fyrsta fundinn með leshringnum, en ég varð fyrir opinberun. Augu mín opnuðust. Ég sá ljósið. Það lýsti langt hinum megin við Atlantshafið, lengst frá veröld minni í London sem var full af glóandi ásjónum mæðra sem drukku grænt te, báru glútenóþolið eins og nýju Louis Vuitton-töskuna og kipptust við eins og maður hefði rétt barni sínu búrhníf þegar maður þaggar niður í því með iPadinum. Ljósið var Framsóknarflokkurinn. Mitt í acai-berja-og-spínat-smoothie-landi þar sem háir hælar og barnavagnar þóttu fara saman skildi ég allt í einu Framsóknarflokkinn.Máttur slúðursins Fyrir 100.000 árum byggðu jörðina að minnsta kosti sex mismunandi afbrigði manna. Nú lifir þar aðeins eitt. Við. Homo sapiens. Ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari sem vann það þrekvirki að koma allri sögu mannsins fyrir á litlum fjögur hundruð blaðsíðum heldur því fram í bók sinni að við berum ábyrgð á því að öll hin afbrigðin dóu út. Í stuttu máli sagt: Við stútuðum þeim. En hver var lykillinn að þessari vafasömu velgengni okkar? Hvaða yfirburði höfðum við yfir Homo habilis, hinn handlagna mann, Homo erectus, hinn upprétta mann, svo ekki sé talað um hinn stóra og sterka neanderdalsmann? Svarið segir Harari liggja í tungumálinu. Fyrir 70.000 árum átti sér að öllum líkindum stað stökkbreyting í heila Homo sapiens sem gerði honum kleift að tjá sig með mun víðfeðmari hætti en aðrar dýrategundir. Með tungumálinu gat maðurinn skipst á upplýsingum um hættur. Hvar lá ljón í leyni? Hvaða sveppategundir voru eitraðar? En það var ekki helsta ástæða vafasamrar velgengni mannsins. Ástæða þess að maðurinn sölsaði undir sig jörðina og kleif upp á topp fæðupýramídans var annars konar upplýsingagjöf. Styrkur hins vitiborna manns fólst í hæfileika hans til að slúðra. Lykillinn að yfirburðum mannsins samkvæmt Harari var geta hans til að mynda stór samfélög. Þorp, bæi, borgir. Í veröld þar sem samfélagið lá til grundvallar því að einstaklingurinn lifði af var miklu mikilvægara að vita hver í bænum átti í deilum við hvern, hver var að sofa hjá hverjum og hver var heiðarlegur og hver ekki en upplýsingar um hvar ljónið var að vappa þá stundina. En hvað kemur þetta Framsóknarflokknum við? Jú, Harari er þeirrar skoðunar að þróun mannsins sé samfelld saga tortímingar. Við komum frændum okkar fyrir kattarnef. Okkur tókst að þurrka út helming allra tegunda stórra spendýra jarðarinnar áður en við fundum upp hjólið. Og með landbúnaðarbyltingunni sem jafnan er lofuð í sögubókunum tryggðum við sess okkar sem háskalegasta lífvera sem sést hefur á jörðinni er við völtuðum yfir heimkynni óteljandi dýra, fugla og plantna.Jörðinni bjargað frá glötun Útlitið er svart. Að mati Harari hefði stökkbreytingin í heila mannsins fyrir 70.000 árum betur aldrei orðið. En ekki er ástæða til að örvænta. Í afkima hinnar hálfglötuðu jarðar, á hrjóstrugri eyju norður í Atlantshafi, er verið að redda málum. Ég hef gjarnan litið á Framsóknarflokkinn sem óleysanlega pólitíska Sudoku-þraut. Ég efldist í þeirri skoðun minni við fréttir síðustu vikna. Hærri vaskur á bækur. Flutningur Fiskistofu út á land. Áburðarverksmiðja. En svo komst ég í Stiklað á stóru í sögu mannkyns. Kæri lesandi, ég boða yður mikinn fögnuð. Hinn alíslenski Framsóknarflokkur vinnur að því hörðum höndum að bjarga jörðinni frá glötun. Hvernig? Jú, með því að snúa þróun mannsins við. Uppspretta yfirburða mannsins er samfélagið, borgin. Límið sem heldur borginni saman er tungumálið. Tilgangur Framsóknar með hærri virðisaukaskatti á bækur er augljóslega að svipta manninn tungunni. Hætti maðurinn að segja sögur, hætti hann að slúðra, mun samfélagið smám saman liðast í sundur og við losnum við borgina, forsendu eyðileggingarmáttar mannsins. Til að flýta fyrir þróuninni verður höfuðborgin jafnframt brytjuð niður stofnun fyrir stofnun sem sáldrað verður lífvana um allar koppagrundir. Og framsóknarmenn eru séðir. Þeir vita að 70.000 ára þróun verður ekki snúið við á einni nóttu. Þeir hyggjast taka þetta í skrefum. Nú þegar hefur grunnur verið lagður að því að taka manninn úr skólum og skrifstofum og senda hann aftur inn í áburðarverksmiðjuna. Þaðan verður hann sendur í sveit, svo koma átthagafjötrarnir, iðnbyltingunni verður snúið við með því að slökkva á færiböndunum, vísindabyltingin verður tekin úr sambandi, landbúnaðarbyltingin fellur í órækt og bamm: Áður en við vitum af verðum við sprangandi um sléttur Afríku á Adamsklæðunum, veiðimenn og safnarar, fyrirferðarlítil dýrategund sem engum stafar ógn af, apar í fyrirmyndarríki Framsóknarflokksins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Ég ætlaði að láta mér nægja að lesa káputextann. Gengu leshringir hvort eð er ekki aðeins út á að drekka hvítvín? En svo frétti ég að ein af konunum í leshringnum mæður-sem-berjast-gegn-heilahrörnun-sökum-of-mikillar-snertingar-við-heimalagað-barnamauk-og-þroskaleikföng sem er starfræktur hér í London hefði verið blaðamaður á Guardian f.b. (fyrir barneignir). Önnur hafði starfað í áhættustýringu hjá JP Morgan. Minnimáttarkenndin helltist yfir mig eins og sturtan sem ég þurfti svo sjúklega á að halda eftir tveggja daga ælupest hjá barninu. Ég mætti ekki gera mig að fífli. Ég yrði að hafa eitthvað annað til málanna að leggja en „skál“. Sapiens: A Brief History of Humankind. Þetta var ein af þessum bókum sem menningarlegu máttarstólparnir töldu manni trú um að væri nýjasta andlega hrukkukremið. Svona eins og Q10 fyrir greindarvísitöluna. Ég gerði mér litlar vonir um kraftaverk. Eftir heilt ár af kúkableium og Teletubbies var heilanum í mér jafn óviðbjargandi og andlitinu á Mick Jagger. En viti menn. Það kann að hafa haft eitthvað að gera með flöskuna af möndludropum sem ég missti ofan í hrákökuna sem ég æfði mig að útbúa fyrir fyrsta fundinn með leshringnum, en ég varð fyrir opinberun. Augu mín opnuðust. Ég sá ljósið. Það lýsti langt hinum megin við Atlantshafið, lengst frá veröld minni í London sem var full af glóandi ásjónum mæðra sem drukku grænt te, báru glútenóþolið eins og nýju Louis Vuitton-töskuna og kipptust við eins og maður hefði rétt barni sínu búrhníf þegar maður þaggar niður í því með iPadinum. Ljósið var Framsóknarflokkurinn. Mitt í acai-berja-og-spínat-smoothie-landi þar sem háir hælar og barnavagnar þóttu fara saman skildi ég allt í einu Framsóknarflokkinn.Máttur slúðursins Fyrir 100.000 árum byggðu jörðina að minnsta kosti sex mismunandi afbrigði manna. Nú lifir þar aðeins eitt. Við. Homo sapiens. Ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari sem vann það þrekvirki að koma allri sögu mannsins fyrir á litlum fjögur hundruð blaðsíðum heldur því fram í bók sinni að við berum ábyrgð á því að öll hin afbrigðin dóu út. Í stuttu máli sagt: Við stútuðum þeim. En hver var lykillinn að þessari vafasömu velgengni okkar? Hvaða yfirburði höfðum við yfir Homo habilis, hinn handlagna mann, Homo erectus, hinn upprétta mann, svo ekki sé talað um hinn stóra og sterka neanderdalsmann? Svarið segir Harari liggja í tungumálinu. Fyrir 70.000 árum átti sér að öllum líkindum stað stökkbreyting í heila Homo sapiens sem gerði honum kleift að tjá sig með mun víðfeðmari hætti en aðrar dýrategundir. Með tungumálinu gat maðurinn skipst á upplýsingum um hættur. Hvar lá ljón í leyni? Hvaða sveppategundir voru eitraðar? En það var ekki helsta ástæða vafasamrar velgengni mannsins. Ástæða þess að maðurinn sölsaði undir sig jörðina og kleif upp á topp fæðupýramídans var annars konar upplýsingagjöf. Styrkur hins vitiborna manns fólst í hæfileika hans til að slúðra. Lykillinn að yfirburðum mannsins samkvæmt Harari var geta hans til að mynda stór samfélög. Þorp, bæi, borgir. Í veröld þar sem samfélagið lá til grundvallar því að einstaklingurinn lifði af var miklu mikilvægara að vita hver í bænum átti í deilum við hvern, hver var að sofa hjá hverjum og hver var heiðarlegur og hver ekki en upplýsingar um hvar ljónið var að vappa þá stundina. En hvað kemur þetta Framsóknarflokknum við? Jú, Harari er þeirrar skoðunar að þróun mannsins sé samfelld saga tortímingar. Við komum frændum okkar fyrir kattarnef. Okkur tókst að þurrka út helming allra tegunda stórra spendýra jarðarinnar áður en við fundum upp hjólið. Og með landbúnaðarbyltingunni sem jafnan er lofuð í sögubókunum tryggðum við sess okkar sem háskalegasta lífvera sem sést hefur á jörðinni er við völtuðum yfir heimkynni óteljandi dýra, fugla og plantna.Jörðinni bjargað frá glötun Útlitið er svart. Að mati Harari hefði stökkbreytingin í heila mannsins fyrir 70.000 árum betur aldrei orðið. En ekki er ástæða til að örvænta. Í afkima hinnar hálfglötuðu jarðar, á hrjóstrugri eyju norður í Atlantshafi, er verið að redda málum. Ég hef gjarnan litið á Framsóknarflokkinn sem óleysanlega pólitíska Sudoku-þraut. Ég efldist í þeirri skoðun minni við fréttir síðustu vikna. Hærri vaskur á bækur. Flutningur Fiskistofu út á land. Áburðarverksmiðja. En svo komst ég í Stiklað á stóru í sögu mannkyns. Kæri lesandi, ég boða yður mikinn fögnuð. Hinn alíslenski Framsóknarflokkur vinnur að því hörðum höndum að bjarga jörðinni frá glötun. Hvernig? Jú, með því að snúa þróun mannsins við. Uppspretta yfirburða mannsins er samfélagið, borgin. Límið sem heldur borginni saman er tungumálið. Tilgangur Framsóknar með hærri virðisaukaskatti á bækur er augljóslega að svipta manninn tungunni. Hætti maðurinn að segja sögur, hætti hann að slúðra, mun samfélagið smám saman liðast í sundur og við losnum við borgina, forsendu eyðileggingarmáttar mannsins. Til að flýta fyrir þróuninni verður höfuðborgin jafnframt brytjuð niður stofnun fyrir stofnun sem sáldrað verður lífvana um allar koppagrundir. Og framsóknarmenn eru séðir. Þeir vita að 70.000 ára þróun verður ekki snúið við á einni nóttu. Þeir hyggjast taka þetta í skrefum. Nú þegar hefur grunnur verið lagður að því að taka manninn úr skólum og skrifstofum og senda hann aftur inn í áburðarverksmiðjuna. Þaðan verður hann sendur í sveit, svo koma átthagafjötrarnir, iðnbyltingunni verður snúið við með því að slökkva á færiböndunum, vísindabyltingin verður tekin úr sambandi, landbúnaðarbyltingin fellur í órækt og bamm: Áður en við vitum af verðum við sprangandi um sléttur Afríku á Adamsklæðunum, veiðimenn og safnarar, fyrirferðarlítil dýrategund sem engum stafar ógn af, apar í fyrirmyndarríki Framsóknarflokksins.