Viðskipti innlent

Nýr íslenskur samskiptamiðill

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón von Tetzchner.
Jón von Tetzchner. mynd/samsett
Von er á nýjum samskiptamiðli frá hugbúnaðarfyrirtækinu Vivaldi en stofnandi fyrirtækisins mun vera hinn íslensk ættaði Jón von Tetzchner.

Um er að ræða samskiptamiðil sem verður svo gott sem laus við auglýsingar og persónunjósnir frá yfirvöldum.

Jón von Tetzchner segir í viðtali við Reuters að miðillinn verði mjög öruggur og ekki möguleiki á að notfæra sér persónuupplýsingar um notendur til að birta auglýsingar um áhugamál notenda.

„Við munum leggja megin áherslu á að markaðssetja samskiptamiðilinn fyrir svo kallaða tölvunörda, en það er ljóst að þeir leggja mikið upp úr öryggi og persónunjósnum,“ segir Tetzchner í samtali við Reuters.

Jón von Tetzchner er meðal stofnanda norska hugbúnaðar- og tæknifyrirtækisins Opera Software en hann hefur verið áberandi í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri. Hann hætti störfum hjá Opera árið 2011.

„Fólk er yfirleitt meðvitað um persónunjósnir og öryggi sitt á veraldarvefnum.

Fyrirtækið hefur nú þegar sett á laggirnar nýja vefsíðu Vivaldi.net þar sem notendur geta skráð sig fyrir nýju tölvupóstfangi, deilt myndum og spjallað saman sín á milli.

Fyrirtækið vonast til þess að geta sett samskiptamiðilinn í loftið þann 1. mars næstkomandi og er markmiðið að milljónir manna nýti sér þjónustuna á fyrstu mánuðunum.

„Að mínu mati þarf að vera lögð meiri áhersla á öryggi almennings á internetinu. Það getur aftur á móti enginn lofað því að NSA láti þennan miðil alveg í friði en við verðum án efa öruggasti samskiptamiðillinn á markaðnum. Íslendingar leggja mikið upp úr því að halda persónunjósnum í algjöru lágmarki og er það ein af aðal ástæðunum fyrir því að fyrirtækið er staðsett á Íslandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×