Lífið

Hélt að brjóstahaldarinn færi í mál við hann

i Elvar segir að það hafi verið skemmtilegt að vera í tómri hagkaupsverslun um miðja nótt.
i Elvar segir að það hafi verið skemmtilegt að vera í tómri hagkaupsverslun um miðja nótt. MYND/eyjólfur jónsson
„Valið stóð á milli Smáralindar og Holtagarða, og sú fyrri hafði vinninginn,“ segir Elvar Gunnarsson leikstjóri.

Hann tók upp tónlistarmyndband í Smáralind fyrir skemmstu fyrir bandaríska tónlistarmanninn Aaron Smith við lagið Dancin, en hlustað hefur verið á lagið þrjátíu milljón sinnum á YouTube.

„Ég fékk þetta verkefni í gegnum fyrirtækið Ultra Music. Mig langaði að komast upp með að gera myndbandið á Íslandi, svona kostnaðarlega, en dansararnir í því eru líka íslenskir, “ segir Elvar.

Myndbandið var tekið upp á tveimur nóttum að mestu í verslun Hagkaups. „Það var smá vesen samt, þar sem það eru erlend vörumerki um alla Smáralind og þau máttu ekki sjást. Í myndbandinu sést orðið „brjóstahaldarar“ á veggnum og það voru einhverjir lögfræðingar í New York sem héldu að „merkið“ „brjóstahaldarar“ myndi fara í mál við okkur,“ segir Elvar og bætir við um upptökurnar:

„Það er fáránlega gaman að vera í Hagkaupi að nóttu til, mér leið eins og litlum krakka,“ segir hann en tökurnar gengu stórslysalaust fyrir sig. „Það var reyndar erfiðara að dansa með túbusjónvarp á höfðinu en ég gerði ráð fyrir, en við björguðum því.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×