Lífið

Ætlaði að vernda dæturnar fyrir helvíti

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kristínu þykir afar vænt um heimabæ sinn, Þingeyri, og segir bæinn ekkert hafa með ofbeldið að gera heldur kalli gerendur óhamingjuna yfir.
Kristínu þykir afar vænt um heimabæ sinn, Þingeyri, og segir bæinn ekkert hafa með ofbeldið að gera heldur kalli gerendur óhamingjuna yfir. vísir/Róbert Reynisson
Kristín Auður Elíasdóttir var beitt kynferðisofbeldi af manni innan fjölskyldunnar þegar hún var barn og lofaði sjálfri sér að vernda börnin sín fyrir því að lenda í því sama. Það var henni því mikið áfall þegar hún fékk að vita að þrjár dætur hennar höfðu einnig verið beitar kynferðisofbeldi og hefur það tvístrað bæði fjölskyldunni og heilu bæjarfélagi.

Kristín ræddi í fyrsta skipti við systur sína um kynferðisofbeldi sem þær höfðu báðar verið beittar af manni innan fjölskyldunnar þegar aðrir þolendur höfðu lagt fram kærur á hendur manninum. Tugum ára eftir að brotin voru framin en Kristín hafði bælt niður sársaukann frá því hún var lítið barn. Eftir að systurnar opnuðu sig hvor fyrir annarri nálguðust þær dætur sínar, því þær óttuðust að gerandinn hefði einnig náð til þeirra. Þá kom í ljós að dætur Kristínar höfðu allar verið beittar kynferðisofbeldi en ekki af sama manni, heldur öðrum sem er þó einnig innan fjölskyldunnar.



„Ég gleymi aldrei þegar elsta dóttir mín sagði mér hver gerandinn væri. Mér fannst ég bíða heila eilífð þar til hún sagði nafnið. Þegar ég fékk svo að vita að þetta væri náinn fjölskyldumeðlimur sem við höfðum umgengist mikið frá fæðingu barna minna, þá bókstaflega hrundi heimurinn. Ég grét það sem eftir var dagsins og langt fram á nótt. Ég gat ekki sofnað af kvíða fyrir því að spyrja hinar dætur mínar. En svo spurði ég þær og svörin komu. Vonin um að þær hefðu sloppið varð að engu.“

Þegar dætur Kristínar voru að alast upp fór hennar lífsreynsla aldrei úr huga hennar og hún ætlaði að gera allt sem í hennar valdi stæði til að hlífa þeim við þeim sársauka sem hún hafði upplifað sjálf. „Ég var svo heppin að vinnan mín var þess eðlis að ég gat haft börnin mikið með mér. Ég var mikið í hestum og reyndi að vekja áhuga þeirra á þeim líka svo að þau væru sem mest í kringum mig. Ég kenndi í skólanum þeirra, sá um félagsmiðstöðina og fór í flestar skólaferðir. En óttinn fylgdi mér alltaf. Þegar þær fóru í menntaskóla var ég hálfmóðursjúk að kynna mér alla vini þeirra og foreldra og kennara. En það dugði ekki til. Mér líður eins og mér hafi mistekist.“

Uppfull af samviskubiti

Kristín segir mun erfiðara að ganga í gegnum þessa reynslu með dætrum sínum en að hafa gengið í gegnum hana sjálf. „Mín reynsla varð að engu um leið og ég vissi þetta. Ég veit hvað þær eiga eftir að ganga í gegnum út ævina því þetta fylgir manni alltaf. Ég upplifði gífurlega sorg og samviskubitið nagar mig, sem er samt svo skrýtið því ég hef aldrei hugsað að mamma mín hafi ekki passað mig nógu vel eða áfellst hana á nokkurn hátt. Hún gat ekki heldur vitað hvað var að gerast.“

Kristín segist átta sig á að ef hún hefði talað fyrr um reynslu sína og talað opinskátt um kynferðislegt ofbeldi hefði hún mögulega getað passað enn betur upp á dæturnar. „Ég var margoft búin að reyna að opna mitt mál með viðtölum hjá Stígamótum og sálfræðingum. Ég stoppaði alltaf þegar kom að því að ég yrði að ég segja frá, því ég hræddist afleiðingarnar. Auðvitað vildi ég óska þess að ég hefði verið jafn kjörkuð og dætur mínar og talað um þetta opinskátt. Ég var oft komin mjög nálægt því að segja frá. En þegar ég var lítil þá vissi ég hreinlega ekki hvaða orð ég ætti að nota til að útskýra þetta fyrir mömmu. Mér fannst það allt svo ljótt. Mér finnst ég hafa oft verið grátandi sem barn þó að það hafi kannski ekki verið sýnilegt þar sem ég reyndi að fela það. Dýrin urðu aðalhuggararnir, þeim getur maður sagt allt í trúnaði. Nú sé ég að dætur mínar gerðu nákvæmlega það sama. Þær voru alltaf að biðja mig um að skutla sér í hesthúsið og vildu bara fá að vera einar með hestunum.“

Kristín segist halda að það sé margfalt erfiðara þegar svona mál koma upp í svo litlu bæjarfélagi.Vísir/Róbert Reynisson
Segja þær vera að skapa leiðindi

Síðustu tvö ár hafa einkennst af mikilli baráttu hjá mæðgunum. Fyrir utan djúp sárin sem þær reyna að láta gróa hefur málið tvístrað fjölskyldunni og bæjarfélaginu. 

„Það vilja fáir taka afstöðu. Svo heyrir maður út undan sér að fólk segi að þetta geti ekki verið satt, að það trúi þessu ekki upp á manninn. En það er ákveðin afstaða. Það er bara það sama og segja að dætur mínar séu að ljúga, ásamt öðrum konum sem hafa lagt fram kærur, en alls eru þær sex. Í byrjun voru afar fáir sem þorðu að láta okkur finna að þeir legðu trúnað á framburð þolenda en þeim hefur fjölgað og faðmlögin sem við fáum verða fleiri með degi hverjum. Þau faðmlög eru ótrúlega góð.“ 

Kristín segist halda að það sé margfalt erfiðara þegar svona mál koma upp í svo litlum bæ enda allir tengdir, annaðhvort vinir eða ættingjar. „Sumir vilja ekki láta sjá sig tala við mig því einhver gæti frétt það. Ég fæ ekki ákveðna þjónustu því þjónustuaðilarnir eru tengdir þessum manni. Svo saka sumir bæjarbúar mig um þetta, segja að ég sé að koma öllu í óefni og búa til leiðindi. Fólki finnst við vera til vandræða. Sumir skilja ekki af hverju er verið að rifja upp svona gömul mál, að þetta setji bara blett á Þingeyri og sé vont fyrir samfélagið. Þingeyri hefur ekkert með þetta að gera. Það eru gerendurnir sem kalla þessa óhamingju yfir en ekki þolendur og fjölskyldur þeirra. Gerendur eiga skömmina og enginn annar. Mér þykir óskaplega vænt um flesta hér í þessum firði og þetta er mitt fólk. Því miður gengur bara ekki nógu vel að láta skömmina fara á sinn stað. Kannski finnst fólki einfaldara að láta okkur sitja uppi með hana.“ 

Hafa misst marga nákomna

Málið er enn til rannsóknar hjá lögreglu og ekki hafa neinar kærur verið birtar. Af sex kærum á enn eftir að ljúka tveimur þeirra, hin fjögur málin voru fyrnd. Kristínu finnst erfitt hve langan tíma málið tekur því biðin geri allar aðstæður helmingi erfiðari. „Ég veit samt að málið er mjög umfangsmikið og rannsókn öll mikil og erfið nákvæmnisvinna. En dómsvaldið er að bregðast með því að hafa fyrningartíma. Svona mál eiga aldrei að fyrnast, fimmtán ár eru ekki lengi að líða og þegar kjarkurinn til að segja frá kemur loksins er viðkomandi aðili í mörgum tilfellum orðinn það fullorðinn að gerandinn gengur í burtu án dóms, hvort sem hann játar eða þrætir.“ 

Þrátt fyrir erfiðleikana síðustu tvö árin segir Kristín að eina rétta leiðin hafi verið að leggja fram kærur og taka þennan slag. 

„Ég kærði mitt mál jafnvel þótt ég vissi að það væri fyrnt því það bjargar mögulega einhverjum öðrum frá því að lenda í þessu. Svo fær maður réttlætistilfinningu í hjartað sitt alveg sama hvað viðbrögðin eða dómskerfið eru óréttlátt. Þetta mál hefur gjörbreytt lífi okkar mæðgna en við hugsum aldrei að við hefðum átt að sleppa þessu. Við vissum að þetta yrði hreint helvíti og á margan hátt hefur raunin orðið sú. Við höfum misst nána ættingja, fólk sem okkur þykir vænt um. Það er óskaplega sárt. En ég held að það geti bara ekki horfst í augu við þetta og ætli það sé ekki auðveldara að vera í afneituninni.“ 

Kristín er ekki viss um að fjölskyldur geti nokkurn tíma jafnað sig eftir svona harmleik og orðið þær sömu og áður. „Ég vona það, en ég er svolítið hrædd um að það verði aldrei eins. En það bara verður að koma með þessi mál upp á yfirborðið, sama hverjar afleiðingarnar eru. Ég er ekki að saka samfélagið en með breyttum hugsunarhætti eru mun meiri líkur á að hægt sé að vernda börnin okkar betur. Þöggunin í samfélaginu smitast til barnanna, þau þegja líka. Ég veit um fólk sem segist hafa heyrt sögur, gruna einhvern um græsku, en það þegir. Af hverju ættu börnin þá að tala?“ spyr Kristín að lokum og hvetur foreldra til að ræða á opinskáan hátt við börnin sín um kynferðislegt ofbeldi. Hún vildi af öllu hjarta að hún hefði talað um það við dætur sínar fyrir tugum ára.


Tengdar fréttir

„Þeir sem leggjast á börn hætta ekkert endilega eftir eitt barn“

Í upphafi ársins 2013 kærðu sex konur mann á Þingeyri fyrir kynferðisbrot sem eiga að hafa átt sér stað yfir langt tímabil. Rætt er við tvær þeirra í Íslandi í dag en þær segja mikilvægt að segja frá hafi maður orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, jafnvel þó brotin séu fyrnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×