Er einfalt betra? Óli Kristján Ármannsson skrifar 10. september 2014 07:00 Ríkisstjórnin hefur nú í annað sinn skilað hallalausum fjárlögum og á fyrir það hrós skilið. Afgangurinn er þó ekki ýkja mikill og verkefnið hefði án efa verið um margt auðveldara hefðu þeir fjármunir sem sólundað er í skuldaniðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verið nýttir til annarra verka. Ekki sjást þess heldur merki í áætlunum þeim sem birtast í fjárlagafrumvarpinu að til standi að gera breytingar á átt til hagræðingar og endurbóta á stórum póstum á borð við landbúnaðarmál, þar sem maður hefði samt talið að eftir nokkru væri að slægjast. Til marks um það eru þeir 12,6 milljarðar króna sem ætlaðir eru í framleiðslustyrki og rekstur Bændasamtakanna á næsta ári í útgjaldaáætlunum landbúnaðarráðuneytisins. Mesta athygli vekja þó þær breytingar á virðisaukaskattskerfi landsins sem ráðast á í. Um næstu áramót færist neðra þrep virðisaukaskattsins úr sjö prósentum í tólf, meðan það efra lækkar úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Ákveðnir afkimar ferðaþjónustunnar sem verið hafa undanþegnir virðisaukaskatti verða svo færðir inn í neðra þrepið næsta vor. Þá eru afnumin vörugjöld af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum, byggingavörum, bílavarahlutum og vörum sem innihalda sykur og sætuefni. Ekki liggur alveg í augum uppi hver áhrif þessara breytinga verða á hag landsmanna. Fjármálaráðherra lýsti yfir því í gær að komið yrði til móts við tekjulægri hópa með hækkun barnabóta. En þær ráðstafanir ná svo sem ekki til fjöldans, sem eftir sem áður þarf að kaupa sér í matinn. Þá á eftir að koma í ljós hvort eða að hversu stórum hluta afnám vörugjalda skilar sér í verðlagningu þeirra hluta sem um ræðir. Áætlanir fjármálaráðuneytisins gera hins vegar ráð fyrir því að breytingarnar skili sér í 0,5 prósenta aukningu ráðstöfunartekna og 0,2 prósenta lækkun verðlags. Hvort þar gætir óskhyggju á eftir að koma í ljós. Eins hljóta nokkur hliðaráhrif að geta hlotist af breytingunum. Til dæmis er vandséð hvernig aukin álagning á bækur, úr sjö prósentum í 12, rímar við áætlanir menntamálaráðuneytisins um bætta lestrargetu landans. Þótt vel geti hljómað að „einfalda kerfið“ má ekki gleymast að kerfið má líka nota til þess að ná pólitískum markmiðum. Hér býr vel menntuð þjóð og ágætlega tækjum búin sem ætti alveg að ráða við dálítið flækjustig í kerfinu. Frakkar hafa til dæmis þann háttinn á að bækur (ásamt sviðslistum margvíslegum og kvikmyndasýningum) bera 5,5 prósenta virðisaukaskatt. Klám og bækur sem ýta undir ofbeldi eru hins vegar í hæsta þrepi. Breytingarnar á kerfinu eru samt líklega til bóta. Viðskiptaráð hefur bent á að hér hafi almenni virðisaukaskatturinn verið sá næsthæsti á byggðu bóli á sama tíma og mælingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafi sýnt að skilvirkni kerfisins hafi verið ábótavant í samanburði við önnur lönd. Ef til vill má kerfið samt alveg við auknu flækjustigi, til dæmis þegar kemur að menningu og matvöru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Óli Kr. Ármannsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Ríkisstjórnin hefur nú í annað sinn skilað hallalausum fjárlögum og á fyrir það hrós skilið. Afgangurinn er þó ekki ýkja mikill og verkefnið hefði án efa verið um margt auðveldara hefðu þeir fjármunir sem sólundað er í skuldaniðurfærslu verðtryggðra húsnæðislána verið nýttir til annarra verka. Ekki sjást þess heldur merki í áætlunum þeim sem birtast í fjárlagafrumvarpinu að til standi að gera breytingar á átt til hagræðingar og endurbóta á stórum póstum á borð við landbúnaðarmál, þar sem maður hefði samt talið að eftir nokkru væri að slægjast. Til marks um það eru þeir 12,6 milljarðar króna sem ætlaðir eru í framleiðslustyrki og rekstur Bændasamtakanna á næsta ári í útgjaldaáætlunum landbúnaðarráðuneytisins. Mesta athygli vekja þó þær breytingar á virðisaukaskattskerfi landsins sem ráðast á í. Um næstu áramót færist neðra þrep virðisaukaskattsins úr sjö prósentum í tólf, meðan það efra lækkar úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Ákveðnir afkimar ferðaþjónustunnar sem verið hafa undanþegnir virðisaukaskatti verða svo færðir inn í neðra þrepið næsta vor. Þá eru afnumin vörugjöld af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum, byggingavörum, bílavarahlutum og vörum sem innihalda sykur og sætuefni. Ekki liggur alveg í augum uppi hver áhrif þessara breytinga verða á hag landsmanna. Fjármálaráðherra lýsti yfir því í gær að komið yrði til móts við tekjulægri hópa með hækkun barnabóta. En þær ráðstafanir ná svo sem ekki til fjöldans, sem eftir sem áður þarf að kaupa sér í matinn. Þá á eftir að koma í ljós hvort eða að hversu stórum hluta afnám vörugjalda skilar sér í verðlagningu þeirra hluta sem um ræðir. Áætlanir fjármálaráðuneytisins gera hins vegar ráð fyrir því að breytingarnar skili sér í 0,5 prósenta aukningu ráðstöfunartekna og 0,2 prósenta lækkun verðlags. Hvort þar gætir óskhyggju á eftir að koma í ljós. Eins hljóta nokkur hliðaráhrif að geta hlotist af breytingunum. Til dæmis er vandséð hvernig aukin álagning á bækur, úr sjö prósentum í 12, rímar við áætlanir menntamálaráðuneytisins um bætta lestrargetu landans. Þótt vel geti hljómað að „einfalda kerfið“ má ekki gleymast að kerfið má líka nota til þess að ná pólitískum markmiðum. Hér býr vel menntuð þjóð og ágætlega tækjum búin sem ætti alveg að ráða við dálítið flækjustig í kerfinu. Frakkar hafa til dæmis þann háttinn á að bækur (ásamt sviðslistum margvíslegum og kvikmyndasýningum) bera 5,5 prósenta virðisaukaskatt. Klám og bækur sem ýta undir ofbeldi eru hins vegar í hæsta þrepi. Breytingarnar á kerfinu eru samt líklega til bóta. Viðskiptaráð hefur bent á að hér hafi almenni virðisaukaskatturinn verið sá næsthæsti á byggðu bóli á sama tíma og mælingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafi sýnt að skilvirkni kerfisins hafi verið ábótavant í samanburði við önnur lönd. Ef til vill má kerfið samt alveg við auknu flækjustigi, til dæmis þegar kemur að menningu og matvöru.