Lífið

Erfiður tími fyrir marga

Vera Einarsdóttir skrifar
"Ég gæti skirfað heila bók um hvað ég hef eytt aðfangadegi á mörgum mismunandi stöðum,“ segir Elísabet
"Ég gæti skirfað heila bók um hvað ég hef eytt aðfangadegi á mörgum mismunandi stöðum,“ segir Elísabet MYND/GVA
Elísabet Jónsdóttir, frumkvöðull og fyrrverandi framkvæmdastjóri, stofnaði nýverið Facebook-hópinn Maður er manns gaman en hann er fyrir þá sem tilheyra brotnum fjölskyldum eða eru einmana.  Hópurinn er vettvangur fyrir fólk sem hefur lítil eða engin tengsl við fjölskyldu sína en tíminn fram undan er sérstaklega erfiður fyrir fólk í þeim sporum.

Það er ýmislegt gert fyrir fólk sem glímir við fátækt, á við geðræn vandamál að stríða og er í AA- samtökunum svo dæmi séu nefnd. Hugmyndin með þessum hópi er að leiða saman fólk sem er eimana af öðrum ástæðum og vill eiga uppbyggileg samskipti,“ segir Elísabet Jónsdóttir sem hefur lengi unnið að hagsmunum fólks sem stendur eitt.

„Ég varð ekkja 47 ára gömul en maðurinn minn, sem var formaður Sjálfsbjargar, lést úr hrörnunarsjúkdómi. Á þeim tíma bjóst ég nú ekki við að vera ekkja alla tíð en svo liðu árin,“ segir Elísabet. „Ég sá það líka fyrir mér að ef ég spyrði næsta mann á pósthúsinu hvort hann vildi koma og drekka kaffi yrði ég álitin skrýtin, enda lítil hefð fyrir því hér á landi. Ég var farin að kvíða stórhátíðum eins og jólum og páskum og ákvað að gera eitthvað í málinu,“ útskýrir Elísabet.

Drífandi

Vorið 2003 fékk Elísabet Braga Skúlason sjúkrahúsprest og fleira gott fólk til liðs við sig og setti auglýsingu í Fréttablaðið. „Ég fékk safnaðarheimilið í Hallgrímskirkju lánað og bjóst við 50 manns. Það komu 250 og í kjölfarið var félagið „París, félag þeirra sem eru einar/einir“ stofnað, og starfar enn. Innan félagsins urðu til ólíkir hópar sem fóru á kaffihús, í leikhús, göngur og fleira í þeim dúr og veit ég til þess að fagfólk er enn að benda á þennan hóp,“ segir Elísabet sem lét ekki þar við sitja enda hefur hún ríka þörf fyrir að bæta samfélagið.

„Árið 2010 fór ég á kynningu á starfi eldri borgara á Seltjarnarnesi þar sem ég bý. Þangað mættu um 70 manns en að langstærstum hluta konur. Ég vildi vita hverju sætti og fór á fund bæjarstjórans. Í kjölfarið fengum við séra Bragi að senda út bréf og halda tvo fundi til að spyrja karlana hvað þeir vildu gera. Kom í ljós að þeir vildu bara hittast í kaffi. Það varð úr og hittast þeir tvisvar í viku.“

Margir einmana

Nú í aðdraganda jóla ákvað Elísabet að stofna hóp á Face­book. „Þetta er erfiður tími fyrir marga í þessum sporum. Hér á landi ríkja sterkar hefðir í kringum jól sem flestar snúast um samverustundir með fjölskyldu og börnum. Fyrir þá sem standa einir getur þetta reynt verulega á. Nýverið heyrði ég útvarpsviðtal við séra Guðnýju Hallgrímsdóttur sem hefur skrifað bókina Skilnaður – en hvað svo? Hún sagði meðal annars frá konu sem vildi helst fara að sofa á Þorláksmessu og vakna 2. janúar, enda einmanaleikinn sjaldan áþreifanlegri en um jól. Þá heyrði ég Hlín Agnarsdóttur leikhúsgagnrýnanda, sem á hvorki mann né börn, segja frá því að hún flýði alltaf jólin þó hún gæti vel verið hjá ættingjum. Þetta reynist bara mörgum erfitt. Sjálf gæti ég skrifað heila bók um hvað ég hef eytt mörgum aðfangadagskvöldum á mismunandi stöðum með mörgu ólíku fólki,“ segir Elísabet og tekur dæmi:

„Eitt árið leitaði ég á náðir Hjálpræðishersins. Ég fór í mitt fínasta púss en fann að ég átti ekki samleið með neinum. Ég gekk í kringum jólatréð með manni í kraftgalla og borðaði ókeypis mat. Þó starfsemi Hjálpræðishersins sé góðra gjalda verð þá var þetta ekki sá félagsskapur sem ég hefði kosið mér. Ég er félagsvera en get borgað matinn minn sjálf og hefði frekar viljað hitta fólk á veitingastað svo ég nefni dæmi.“

Félagsskapur til framtíðar

Að sögn Elísabetar er hugmyndin með hópnum sú að þátttakendur finni út í sameiningu hvað þeir vilji gera og að til verði félagsskapur til framtíðar. Áhugasömum er bent á að sækja um aðgang undir Maður er manns gaman á Facebook eða að senda Elísabetu línu á bessy@simnet.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×