Jeremy Clarkson segist eiga eftir að sakna þess að fá að stýra Top Gear þáttunum á BBC. Honum var vikið frá störfum í mars eftir að hafa ráðist á framleiðanda þáttanna. Hann hefur ekki tjáð sig um málið fyrr nú, en hann ritaði pistil í breska blaðið Sun í dag.
„Hjartanlegar þakkir til allra þeirra sem hafa skrifað mér og sagt mér að mín verði saknað í Top Gear,“ skrifaði Clarkson. Hann tjáði sig þó ekkert um árásina.
Clarkson hefur, þrátt fyrir árásina, notið mikils stuðnings víða um heim. Um ein milljón manna hefur ritað nafn sitt á undirskriftalista þess efnis að Clarkson verði endurráðin. Framleiðandinn, Oisin Tymon hefur þó orðið fyrir barðinu á nettröllum og hefur jafnvel verið hótað lífláti.
