Viðskipti innlent

Hlutfall kvenna aldrei hærra meðal blaða- og fréttamanna

ingvar haraldsson skrifar
Blaða-og fréttamönnum hefur fækkað talsvert frá hruni.
Blaða-og fréttamönnum hefur fækkað talsvert frá hruni. vísir/vilhelm
Hlutfall kvenna í hópi blaða- og fréttamanna hefur aldrei verið hærra. Af fullgildum félagsmönnum í félögum blaða- og fréttamanna við lok síðasta árs var hlutfall kvenna tæplega 43 prósent. Af samanlögðum félagmönnum beggja félaga voru konur 250 á móti 337 körlum.

Hlutur kvenna í blaðamannastéttinni hefur aukist talsvert síðustu ár. Árið 1995 voru konur tæplega 28 prósent félagsmanna í Blaðamannafélagi Íslands og 35 prósent félagsmanna í Félagi fréttamanna. Sjá má þróunina á myndinni hér að neðan.

Blaðamönnum fækkað verulega frá hruni

Í árslok síðasta árs voru fullgildir félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands og Félagi fréttamanna samtals 587 talsins. Þar af voru félagsmenn Blaðamannafélagsins 533, en félagar Félags fréttamanna, sem fréttamenn Ríkisútvarpsins einir eiga aðild að, 54 að tölu. Fullgildum félagsmönnum í báðum félögum hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum. Fullgildum félagsmönnum Blaðamannafélagsins hefur fækkað um 105, eða 16 prósent, frá því að þeir voru flestir árið 2006. Svipaða sögu er að segja um Félag fréttamanna, en þar hefur fullgildum félögum fækkað um 21, eða um 28 af hundraði, frá því að þeir voru flestir árið 2007.

Kynjahlutfallið meðal félagsmanna í Blaðamannfélagi Íslands er mun jafnara en það var árið 1995.mynd/hagstofa íslands





Fleiri fréttir

Sjá meira


×