Lífið

Tveir út tökuliði væntanlegrar myndar Tom Cruise fórust í flugslysi

Birgir Olgeirsson skrifar
Tom Cruise.
Tom Cruise. Vísir/Getty
Tveir úr tökuliði væntanlegrar kvikmyndar bandaríska leikarans Tom Cruise, Mena, létu lífið í flugslysi í gær. Slysið átti sér stað nærri borginni Medellin í Kólumbíu þegar tveggja hreyfla Aerostar-vél lenti í ókyrrð sem varð til þess að hún brotlenti nærri fjallinu Alto de la Clarita.

Flugmaðurinn, Alan David Purwin, og Kólumbíumaðurinn Carlos Berl létu báðir lífið en aðstoðarflugmanninum Jimmy Lee Garland er haldið sofandi á gjörgæsludeild.

Purwin hafði starfað við kvikmyndagerð í þrjá áratugi en hann hóf feril sinn sem þyrluflugmaður við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Airwolf. Hann hafði unnið við tökur á fjölda þekktra mynda, til dæmis Die Hard, Speed og nýlega Jurassic World og Furious 7.

Berl var kólumbískur ríkisborgari en fjölmiðlar segja það ekki vera á hreinu hvert hans hlutverk var við tökur á kvikmyndinni Mena.

Í myndinni fer Cruise með hlutver Barry Seal, bandarísks flugmanns, sem starfaði lengi fyrir kólumbíska eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar áður en hann gerði njósnari fyrir bandarísku fíkniefnalögreglunar. Tökur á myndinni í Kólumbíu höfðu staðið yfir síðan í ágúst en með önnur hlutverk fara Jesse Plemons, Domhnall Gleeson, Sarah Wright og Caleb Landry Jones. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×