Lífið

Fékk óútskýrð hjartastopp í besta formi lífs síns

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Friðleifur telur sig lánsaman að hafa verið á heimili sínu þegar hann fékk hjartastoppið en ekki erlendis einn á hótelherbergi en hann ferðast mikið vegna starfs síns.
Friðleifur telur sig lánsaman að hafa verið á heimili sínu þegar hann fékk hjartastoppið en ekki erlendis einn á hótelherbergi en hann ferðast mikið vegna starfs síns. Fréttablaðið/Stefán
Fyrst þetta gerðist þá er ég ofboðslega þakklátur fyrir hvar ég var staddur,“ segir Friðleifur Friðleifsson sem varð fyrir því í júlí síðastliðnum að fá skyndilegt hjartastopp í svefni á heimili sínu. Friðleifur er 45 ára gamall hlaupari og í besta formi lífs síns. „Margir hafa furðað sig á því að þetta hafi komið fyrir einstakling í mínu formi en þetta er eitthvað sem getur komið fyrir alla,“ segir Friðleifur sem á að baki glæsilegan hlaupaferil og hefur tekið þátt í fjölmörgum hlaupum og maraþonum undanfarin ár með góðum árangri.

Friðleifur starfar hjá Iceland Seafood og vegna vinnu sinnar ferðast hann töluvert erlendis. Það var því í raun lán í óláni að hann var heima við hlið eiginkonu sinnar þegar hjartað stöðvaðist en ekki einn á hótelherbergi erlendis. „Þá sæti ég ekki hér,“ segir hann. Ég var bara ótrúlega heppinn.

Friðleifur rifjar upp aðfaranótt föstudagsins 17. júlí þegar hann fékk hjartastopp. „Ég fór að sofa á fimmtudagskvöldi og leið bara vel, ekkert var að angra mig. Síðan vakna ég bara í raun og veru upp á spítala morguninn eftir og ég man ekkert hvað gerðist þarna á milli. Allt sem ég er að segja frá er komið frá fólkinu sem var í kringum mig og hefur sagt mér hvað gerðist,“ segir hann.

Stuðaður í gang á gólfinu heima

„Konan mín sem er hjúkrunarfræðingur vaknaði við það að ég gaf frá mér stök hávær öndunarhljóð og hún áttar sig á að eitthvað er að. Hún sér og finnur að ég er stífur, blár, púlslaus og sýni engin viðbrögð og byrjar þá strax að hnoða og blása mig. Elsti strákurinn okkar vaknar líka við þessi hljóð og umgang frá svefnherberginu.“

Sonurinn hringir á Neyðarlínuna og sjúkraflutningsmenn og lögregla voru komin á staðinn eftir um 6 mínútur. Þetta gerðist snemma um morgun og þeir voru fljótir á staðinn þó svo að heimilisfólkinu hafi þótt þetta heil eilífð. Friðleifur hafði þá verið í hjartastoppi allan tímann og ekki sýnt nein viðbrögð, en eiginkona hans hélt áfram að hnoða hann þann tíma

„Þegar sjúkraflutningsmennirnir komu þá tóku þeir við endurlífgunarferlinu og stuðuðu mig í gang á gólfinu heima hjá mér. Þá var mér að sjálfsögðu ekið með hraði á spítalann. Strákarnir mínir voru ótrúlega duglegir á meðan á þessu stóð, því það er örugglega ekki auðvelt að sjá heimilið fyllast af sjúkraflutningsmönnum og lögreglu eldsnemma á á föstudagsmorgni til að koma pabba til bjargar.“

Vaknaði á spítala

„Það var mjög skrýtið að vakna í rúmi á spítala og átta sig á því hvar maður væri og spyrja af hverju er ég hérna? Hvað gerðist, að þurfa svo að kyngja því að það hafi einhver svona alvarlegur hlutur komið fyrir þig, það var mjög skrýtið. Sjá alla fjölskylduna samankomna og maður sá á svip þeirra að það hafði mikið gengið á.“ Friðleifur var hafður á hjartadeildinni yfir daginn undir ströngu eftirliti.

„Svo um kvöldið þennan sama dag þá fæ ég annað hjartastopp. Ég sat á rúmgaflinum og mónitorinn fer skyndilega að sýna að ég er að fá mikið af aukaslögum, ég dett út og enda aftur í hjartastoppi. Ég var strax stuðaður aftur í gang og settur á lyf sem vinna gegn hjartsláttaróreglu.“

Hann segir það hafa verið ákveðið áfall að þetta hafi gerst aftur. „Það var svolítið erfitt að sætta sig við það. Þá áttaði maður sig á að það var eitthvað sem var ekki alveg í lagi. Þá var ekki hægt að afskrifa þetta sem stakt tilfelli,“ segir hann.

Í kjölfarið voru gerðar enn frekari rannsóknir á Friðleifi en ekki fannst hvað olli hjartastoppunum.

„Ég var sendur í allar mögulegar rannsóknir en niðurstaðan er einfaldlega sú að það er engin augljós skýring á þessu. Færustu hjartalæknar LSH gátu ekki tengt þetta stopp við hlaupaæfingar, frekar en vinnuálag eða því um líkt, þetta er í raun bara algjörlega óútskýrt.“



Friðleifur Friðleifsson Gengur vel
Tækið mun bjarga

Í framhaldinu var ákveðið að setja bjargráð í Friðleif. „Þetta verð ég alltaf með,“ segir hann og sýnir bjargráðinn. „Þetta var skrýtið fyrst en ég er farinn að venjast þessu núna. Maður verður að þakka fyrir það að vera kominn með þetta tæki. Það mun bjarga mér ef þetta gerist aftur. Tækið er hannað til að bjarga fólki. Þetta virkar líka sem gangráður þannig að ef hjartað fer að slá óreglulega þá grípur hann inn í. Ef gangráðurinn ræður ekki ekki við óregluna og ég fer í lífshættulegan takt þá kemur stuð í bringuna. Það er víst eins og að fá hestaspark í bringuna en nú er stefnan sett á að fá aldrei stuðið,“ segir hann ákveðinn.

Friðleifur var í átta daga á spítalanum en fékk svo að fara heim. Hann átti erfitt með svefn fyrstu næturnar. „Þetta gerðist í svefni og fyrst hugsaði maður hvort þetta myndi gerast aftur ef ég færi í hvíld. En svo komst ég yfir það.“

Hjartastoppin voru nokkuð sem Friðleifur bjóst ekki við að lenda í. Hann er í toppformi og hefur keppt í hlaupum undanfarin ár með góðum árangri, t.d. í Esjuhlaupinu og á Laugaveginum auk þess að hlaupa nokkur maraþon erlendis. Tveimur vikum fyrir hjartastoppið hljóp hann ásamt 11 öðrum hlaupurum hringinn í kringum landið fyrir átakið Útmeða. Vegna hlaupaferilsins hafa margir haldið að hjartastoppið hafi komið að völdum ofþjálfunar. „En það er engin tenging þar,“ segir hann.

Hjálpaði að vera í góðu formi

Friðleifur segist hafa einsett sér að vera jákvæður eftir þessa reynslu og nýta sér hana til góðs. Það að hafa verið í svo góðu formi hafi hjálpað honum að jafna sig fljótt. „Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að vera á lífi. Ég gat farið að vinna fljótt aftur og fara í göngutúra en er ekki farinn að hlaupa enn. Ég mun gera það en þá ætla ég ekki að vera í kappi við klukkuna enda ef til vill óþarfi. En það er mikið félagslíf í kringum hlaupin og skemmtilegur félagsskapur.“

Hann segir að það hafi einnig skipt miklu máli að reyna að vera andlega sterkur, og líta jákvætt á þetta. „Ég fékk bæði líkamlega og andlega hjúkrun á Landspítalanum og við fjölskyldan fengum til dæmis öll áfallahjálp og það hjálpaði okkur gífurlega mikið. Ég lít björtum augum á framtíðina og það er mikil mildi að ég hafi sloppið svona vel þrátt fyrir allt saman, það hefði margt getað farið allt öðruvísi. Þegar þú ert í svona vandræðum þar sem þú veist ekki hvað er að þér þá reynir maður að njóta augnabliksins betur. En fyrst og fremst met ég það mikils sem gert hefur verið fyrir mig. Ég á svo mörgum mikið að þakka og sérstaklega fjölskyldunni. Við eigum jafnframt frábært heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningsmenn og lögreglu. Það vildu allir allt fyrir mig gera. Mér finnst nauðsynlegt að þakka þeim fyrir það. Það var líka ómetanlegt að að finna fyrir allri vinsemdinni og væntumþykjunni frá fjölskyldu og vinum.“

Skyndihjálp skiptir öllu

Friðleifur hvetur fólk til þess að læra skyndihjálp. „Það skiptir svo miklu máli. Það bjargar mannslífum. Ég sæti ekki hér í dag ef konan mín hefði ekki búið yfir þessari kunnáttu. Fólk hugsar alltof oft að þetta geti ekki komið fyrir á sínu heimili.

Ég held að fólk eigi fyrst og fremst að skoða alvarlega að verða sér úti um þessa þekkingu. Sjálfur kann ég ekki fyrstu hjálp upp á tíu en ég stefni á að bæta þá þekkingu hið fyrsta,“ segir hann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×