Lífið

Verkin tengd saman með farvegum vatns

Sýning á verkum systranna þriggja verður opnuð í dag í Galleríi Gróttu. Mynd/Úr einkasafni
Sýning á verkum systranna þriggja verður opnuð í dag í Galleríi Gróttu. Mynd/Úr einkasafni Mynd/Einkasafn
Í dag verður sýningin Farvegir vatns opnuð í Galleríi Gróttu á Seltjarnarnesi.

Á sýningunni má sjá verk systranna Ingileifar, Áslaugar og Sigrúnar Thorlacius og er þetta fyrsta samsýningin á verkum systranna þriggja. Þráðurinn í gegnum sýninguna er vatnið, áhrif þess, nýting og kraftur sem þær vinna með á ólíkan máta.

„Við ákváðum að finna einhvern þráð og sáum fljótlega hvernig við gátum tengt okkur saman með farvegum vatnsins,“ segir Áslaug en verkin sem hún sýnir eru blýantsteikningar og röð blekmynda af náttúrufyrirbrigðum þar sem farvegir vatns eru í aðalhlutverki. Verkin fjalla um vestfirskar fjallahvilftir, gil og klettabelti sem vatn og aðrir náttúrukraftar hafa mótað. 

„Ingileif, elsta systir okkar, notaði mikið vatnsliti í sínum verkum og í síðustu verkum sínum lét hún vatnslitina eiginlega stjórna útkomunni. Lét litinn flæða og þorna í pollum svo úr varð mynd. Stundum einn lit og stundum fleiri,“ segir Áslaug um verk elstu systur sinnar en Ingileif hélt fimm einkasýningar á ferli sínum og tók þátt í átta samsýningum á Íslandi og í Svíþjóð en hún lést árið 2010. Lýsa má verkum hennar á sýningunni sem einfaldri rannsókn á ferðalagi vatnsins um pappírinn.

Sigrún er vöruhönnuður að mennt og eru verk hennar hugvekja um votlendið en þetta er hennar fyrsta opinbera sýning eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands síðastliðið vor.

Sýningin verður opnuð klukkan 17.00 í Galleríi Gróttu sem er á annarri hæð á Eiðistorgi. Sýningin verður opin til 4. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×