Bílar

Góður bíll verður betri

Finnur Thorlacius skrifar
Kia cee´d - rennilegur á rúntinum.
Kia cee´d - rennilegur á rúntinum.
Reynslukastur - Kia cee´d



Kia cee´d er bíll sem selst hefur ágætlega hér á landi, en hann er í stærðarflokki með Volkswagen Golf, Ford Focus, Mazda3 og mörgum öðrum vinsælum bílum sem teljast til C-stærðarflokks. Kia hefur framleidd cee´d frá árinu 2006 og hefur þegar selt yfir eina milljón eintaka. Kia cee´d er nú af annarri kynslóð en í ár var þó komið að andlitslyftingu á bílnum sem kynnt var blaðamönnum í Slóvakíu í síðustu viku. 
Eftir að aðalhönnuður Kia, Peter Schreyer, tók útlit cee´d í gegn með annarri kynslóð hans hefur bíllinn verið mikið fyrir augað og það er hann enn frekar nú eftir ekki svo stórtækar en ágætar breytingar á honum. Mest áberandi útlitsbreytingin á bílnum er tilkoma fjögurra teninga þokuljósa á svuntu hans.

Meiri fréttir eru fólgnar í bættri efnisnotkun innréttignarinnar og bættri fjöðrun. Markmiðið var að gera bílinn bæði ljúfari í akstri en samt beittari og það hefur sannarlega tekist. Leit er að bíl sem er með ljúfari stýringu og er þægilegri í akstri. Líklega er athygliverðasta breytingin á bílnum þó fólgin í nýrri vél sem í hann býðst. 


 
Fáguð og öflug ný 1,0 lítra vél

Mjög athygliverður vélarkostur býðst nú í Kia cee´d. Þar fer aðeins 1,0 lítra og þriggja strokka bensínvél sem orkar þó ein 120 hestöfl. Þeim fjölgar mjög þriggja lítra vélunum hjá bílaframleiðendum og undantekningalaust eru þetta skemmtilegar og frískar vélar. Það var helst að orðið fágun hafi komið uppí hugann þegar vélin var prófuð. Hún er þýðgeng og hljóðlát, en merkilega öflug og frábært var að aka honum með góða beinskiptingu í hægri hendi.

Annar góður vélarkostur sem býðst í Kia cee´d er 136 hestafla og 1,6 lítra dísilvél. Þar fer kunnugleg vél frá Kia sem drifið hefur fleiri bíla frá S-kóreska framleiðandanum. Báðar eru þessar vélar EURO 6-hæfar, mengunarlitlar og sparsamar. Í frísklegum reynsluakstri á bílnum með dísilvélina var hann samt undir 6 lítrum. 
 
Hljóðlátur lúxus
Athygli vakti hve Kia hefur tekist að gera bílinn hljóðlátan og heyrðist bæði afar lítið frá vélunum, vegi eða vindi þó stundum væri hratt farið. Fyrir ekki svo stóran bíl sem Kia cee´d var einnig athyglivert að finna hve öruggur og hljóðlátur hann var á 190 km hraða á góðri hraðbraut í Slóvakíu. Var það fyrirhafnarlaus akstur og ökumaður hafði á tilfinningunni að miklu hægar væri farið.

Ef eitthvað á að setja útá aksturshæfni bílsins þá var nokkru sinni reynt að taka krappar beygjur á talsvert mikilli ferð og missti hann þá örlítið grip að framan og skaut aftur rassinum. Einnig fannst mér bíllinn mætti halla minna í beygjum. Þarna var ágætt að finna hvar takmörk bílsins liggja og haga akstrinum eftir því en þarna gera sumir bílar betur en Kia cee´d og það einmitt í þessum stærðarflokki bíla.

Eftir talsvert mikinn akstur á öllum hugsanlegum útfærslum bílsins var enn mikið bros á ökumanni og hrifning af bílnum. Hann er bara eitthvað svo traustur og fágaður. Á það bæði við aksturinn og umhverfið sem boðið er uppá í þessum bíl. Þetta tilfinning kemur ef til vill ekkert á óvart þegar Kia bílar eiga í hlut.

Þar fer vönduð framleiðsla og til vitnis um það voru ummæli eins hérlends þátttakenda í reynsluakstrinum. Sá var fulltrúi stærstu bílaleigu landsins, en reynsla fyrirtækisins af Kia bílum er þannig að þeim fer sífellt fjölgandi í stórum bílaflotanum. Kia býður 7 ára ábyrgð á bílum sínum einir bílaframleiðenda og það sýnir þeirra eigin trú á gæðaframleiðslu sinni, sem staðfestist þarna. 
 
Gerður fyrir Evrópubúa
Kia cee´d hefur hvorki minnkað né stækkað með þessari andlitslyftingu og er hann enn tiltölulega rúmmikill bíll með góðu fótarými afturí, sem þó er meira í samkeppnisbílunum Skoda Octavia og Nissan Pulsar. Skottrými er hreint ágætt, 380 lítrar og stærra en í VW Golf og Ford Focus og skotthlerinn er stór og tryggir fyrirhafnarlitla hleðslu. Ákaflega vel fer fyrir framsætisfarþegum og þó svo fyrsta tilfinning hafi verið sú að framsætið væri nokkuð stíft þá reyndist það við lengri akstur afar gott og þreytti ekki ökumann.

Kia cee´d er bíll sem er teiknaður í Evrópu af Evrópumönnum og ætlaðar Evrópumönnum og auk þess smíðaður í Evrópu, nánar tiltekið í Slóvakíu. Í ferðinni var verksmiðja þeirra skoðuð og þar er auðveldlega hægt að sannfærast um að Slóvakar kunna að smíða bíla og þar er allt fyrsta flokks. Þess vegna kemur útkoman ekkert á óvart, Kia cee´d er ferlega eigulegur bíll. 

Kostir: Vélar, útlit, frágangur innanrýmis


Ókostir: Grip í beygjum og hliðarhalli



1,6 l. dísilvél, 136 hestöfl

Framhjóladrif

Eyðsla: 5,4 l./100 km í bl. akstri

Mengun: 124 g/km CO2

Hröðun: 9,8 sek.

Hámarkshraði: 195 km/klst

Verð frá: 3.490.000 kr.

Umboð: Askja
Vönduð og vel smíðuð innrétting er í cee´d.
Gæjalegur framendi og óvenjuleg ljós komin neðarlega á svuntuna.





×