Lífið

Byltingarkenndar sparnaðarleiðir Eyglóar

Jakob Bjarnar skrifar
Eygló hefur sett fram hugmyndir um sparnað við byggingar sem líklega leysa húsnæðisvandann á Íslandi.
Eygló hefur sett fram hugmyndir um sparnað við byggingar sem líklega leysa húsnæðisvandann á Íslandi. visir/gva
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra segir að með því að stytta byggingartíma sé hægt að lækka byggingarkostnað töluvert. Lítið hefur verið byggt af nýjum íbúðum að undanförnu meðan eftirspurnin er mikil. Til að bregðast við þessu ástandi boðuðu stjórnvöld til fundar í gær og segir Eygló fundinn hafa verið góðan. Viðskiptablaðið greinir frá:

Eygló segir að 10 til 15 aðilar komi að byggingu húss. Ef hver og einn væri með jafnt hlutfall í byggingarkostnaðinum og gæti lækkað kostnað hjá sér um 1% þá myndi það þýða heildarlækkun upp á 10 til 15%.

Það fylgir svo sögunni að það hafi verið gerður góður rómur að þessum hugmyndum Eyglóar á fundinum.

Nema, nú klóra menn sér í kollinum og er þetta mál meðal annars til umræðu á Pírataspjallinu á Facebook. Eru margir á því að þetta þýði ekki 10 til 15 prósenta heildarlækkun, heldur einfaldlega 1 prósent. Ekki gangi að leggja saman í prósentureikningi. Og spyr einn þeirra sem tekur þátt í umræðunni af hverju ekki hafi þá einfaldlega verið fengnir hundrað aðilar að verkinu, og þannig mætti lækka byggingarkostnaðinn um hundrað prósent.

Þá segist ein hafa lesið þetta fyrir móður sína, gamlan stærðfræðikennara, sem sagði við svo búið: Ég vona að ég hafi ekki kennt henni þessari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×